mánudagur

Datt svona í hug að láta vita af því að ég er ekki dauð úr öllum æðum enn. Skólinn er hins vegar á góðri leið með að draga mig í gröfina.

Ég uppgötvaði nýtt um helgina. Ég er bara tiltölulega nýbyrjuð að drekka rauðvín (júlí 2003) og ég er ennþá að læra inn á þetta allt saman. Vill svo skemmtilega til að ég á kærasta sem vinnur í vínbúðinni og hann keypti líka þetta fína rauðvín á laugardaginn. Svo kynnti hann mig fyrir rauðvíni og ostum. Ansi góð blanda þar á ferð verð ég að segja. Hann vill meina að það sé eins og gott hjónaband. Ég vona samt að mitt hjónaband verði ekki jafn illa lyktandi og ostar og sterkt eins og rauðvín...

Gerðist menningarleg í gær þegar ég fór niðrí bæ á kaffihús og fékk með vöfflu með ís og kakó. Svo var haldið í bókabúðina í Austurstræti og skoðaðar bækur í hátt í klukkutíma held ég. Annars var ég ekki mikið að taka tímann. Þar sá ég bók sem er bara með ljósmyndum af blöðum úr dagbók Kurt Cobain og duttu mér þá allar dauðar lýs úr hári. Ég hélt að þetta væri svona prívat og persónulegt! Ég vil bara segja það hér og nú að þegar ég verð fræg og dey sorglegum dauða, þá vil ég láta brenna dagbækurnar mínar með mér! Og ekkert múður með það. Ég vil ekki að aðrir lesi mínar geðveiku huxanir (sem eru jú enn geðveikari en ég deili með ykkur hér).

Tseek, Tseek.

Engin ummæli: