fimmtudagur

Hvort kemur sterkara inn...
...að borða Elg á Þorláksmessu eða skötu?
Ég segi skötu. Borðaði tvo (kannski ekki kúffulla) diska af skötu og kartöflum og undi vel við. Fékk reyndar ekkert brennivín. Svolítið ósátt með það, en ég skal samt alveg fyrirgefa það.
Jólin koma eftir 25 klukkustundir og kortér. Haldiði að þið haldið það út?

Músin - sem lyktar eins og úldin pussa

miðvikudagur

Fékk í skóinn!
Ég er búin að fá í skóinn! Tæknilega séð fékk ég ekki í skóinn frá jólasveininum, heldur vorkenndi mamma mér svo mikið að jólasveinninn væri ekki búinn að gefa mér í skóinn, þannig að hún gaf mér perlufesti og belti :) Oh, hún er svo mikið krúttíbúttí.

Músin - sem er alveg að fara yfirum á limminu á jóladagsniðurtalningunni!
Úps!
Einhvers staðar á lífsleiðinni fór ég úr því að vera fyrirmyndar nemandi í Súsúkítónlistarskólanum og yfir í að verða fyrirmyndar systir í Súsúkískólanum. Er þá ekki rökrétt að ég verði næst fyrirmyndar mamma í Súsúkískólanum? Ég spyr... Einhver sjálfboðaliði til að láta þetta gerast? Anyone?

Ég held að jólasveininn sé ekki alveg að skilja konseptið. Ég er ekki ennþá búin að fá í skóinn! Samt er ég búin að standa á haus og vera eins góð stelpa og mögulega hef getað, en allt hefur komið fyrir ekki; ég fæ ekki neitt í skóinn. Ég treysti samt ennþá á Kertasníki með sitt góða og sígilda Prins Póló og Malt á aðfangadagsmorgunn. Mmmm... ég get ekki beðið eftir því að kúra undir sæng með Fíber/ljósleiðaratréð mitt á fullu blasti, prins í annarri og malt í hinni og að horfa á barnaefnið! Það verður gjuðveikt! Sérstaklega af því að ég er í fríi núna sko... alveg í fríi.

Skötuskandall
Skatan verður í hádeginu á morgun en ekki að kvöldi til eins og hefur verið hefðin að minnsta kosti síðustu átján árin. Nú er ég hlessa.
Pælið í þessu: ef þið takið k-ið úr orðinu Skatan þá fáið þið... Já! Satan! Hverjum hefði dottið þetta í hug? Kannski er þetta leið djöfulsins til þess að koma sér inn í þau rólegheit og þá birtu og gleði sem fylgir jólunum. Hann gerir heiðarlega tilraun til þess að drepa verslunarfólk úr fýlu á þorláksmessukvöld með því að senda illa þefjandi íslendinga í síðustu mínútu verlsunarleiðangur. Pælum aðeins í þessu! Gæti maður ekki ímyndað sér að prumpufýla sjálfs djöfulsins sé eins og lyktin af skötunni?

Músin - sem veit ekki í hvorn fótin hún á að stíga

þriðjudagur

JÁ! Búin að skreyta jólatréð og heilir 3 dagar til jóla! Detti mér allar dauðar... Maður hefði nú einmitt haldið að Jónas hefði verið maður og keyrt til vinstri, en allir góðir hlutir verða að enda með slæmum hlutum!

Ég er komin með mitt eigið jólatré. Það er voðalega sakleysislegt og krúttilegt. Ljósleiðarar gætu gert mann skakkann, eða geðveikan, eða hvort tveggja ef horft er of lengi. En þegar ég setti þetta tré upp þá mundi ég eftir einni kvöldstund þegar ég var á að giska í tíunda bekk. Hér kemur ein lítil jólasaga:

Hvernig Músin uppgötvaði jólin

Það var jólin 2001 ef ég man rétt. Músin var búin að skreyta fyrir jólin, en nú var skólinn kominn í jólafrí og ekki mikið að gera. Sem oftar sat Músin að leiðindum með félögum sínum, er uppástunga sú, að fara á fyllerí í ótéðum garði þar í bæ stakk upp hausnum. Músinni og félögum var ekki lengur til setunnar boðið, heldur örkuðu í téðan garð á strigaskóm og allt of þunnum og hallærislegum fötum. Þegar á staðinn kom uppgötvuðu Músin og félagar að þau höfðu ekkert áfengi. Leitað var á náðir samfylleríinga og þar sníktir nokkrir sopar. Ekki leið á löngu, eða um það bil eftir að 1 bjór og nokkrir sopar af ónefndu glundri höfðu rutt sér leið inn um varir Músarinnar, að hún var orðin helölvuð og stóð vart í lappir. Það er ekki frásögu færandi því því músin hefur löngum verið orðuð við fugltegund þá er ber íslenska heitið hæna í sambandi við áfengisdrykkju, einkum á yngri árum.
Músinni og félögum þótti tímabært að fara heim, því lágur aldur gerði það að verkum að ekki mátti vera úti lengur en, tja, við skulum ekkert láta það í ljós. Eftir u.þ.b. kortérs göngutúr heim á leið í frosti og viðbjóði, var Músin fyllri en nokkru sinni áður, arkaði inn, bauð samleigendum (foreldrum, ef þið viljið hafa það þannig) að eiga góða nótt og strunsaði svo inn í herbergi sitt. Þar lagðist Músin niður og horfði á áðurtéð jólatré glitra svona fallegum ljósleiðaraljósum og hugsa:
,,Vaaááá... En hvað þetta er fallegt..."
og ekki var laust við að nokkur tár féllu, jafnvel nokkur sms til ónefndra aðila sem Músin ku hafa verið ástfangin af í þetta skiptið. Það má segja að í þessu óskilgreinda ástandi, milli svefns-vöku-drykkju-edrús-skekkju-bykkju, hafi Músin uppgötvað jólin fyrir alvöru. Eftir þessa reynlsu varð Músin aldrei söm aftur, hún leit lífið öðrum augum og gerði allt í sínu valdi til að láta hætta að kalla sig hænu og breiða út boðskapinn; Ljósleiðaratré eru framtíðin, látið ekki náttúruna blekkja ykkur með sínu lífræna, græna, dauðlega viðbjóði.
Krakkar mínir, þetta er saga sem við ættum öll að læra af. Hversu miklar hænur sem við erum.
Farið varlega í jólaölið, þið gætuð orðið full!
Músin, með fullan matinn af Nóakonfekti

mánudagur

Kallinn floginn til sverige yfir jólin... Fínt að fá smá tíma fyrir sjálfan sig, en ég neita því ekki að það hafi verið svolítil eftirsjá þegar hann gekk upp í fríhöfnina... Ég meina, það er ekki hægt að ekki sakna ástmanns síns yfir aðal hátíðis/éti/leti/freti-daga ársins... Annars væri maður nú bara eitthvað brenglaður. Ég er latari en allt sem latt er...

Tuttugu og fjórir

Ég er alveg að missa mig yfir þessum frábæru þáttum! Er með seríu 2 í láni og ég bara næ varla að slíta mig frá þessari schnilld!

Þrjúhundruðsextíuogfimm
Fékk frábærustu dagbók sem um getur frá kallinum í svona fyrirfam jólagjöf í gær... Hún er geggjuð! Með alls konar svona flippuðu túdúi á hverri síðu. Til dæmis er miðvikudagurinn fimmti janúar sá dagur þar sem maður á að vera mannæta í einn dag... Flipp! Ég segi nú ekki meira. Ég elska þennan elskuhuga minn!

Takiði skrefið
Borið í nefið!

Músin sem aldrei sefur...

laugardagur

Kærasti frænku minnar varð í fjórða til fimmta sæti á herra ísland (nefni engin nöfn)!
Er á leiðinni á djammið! Próflokadjamm! Við erum að tala um feitast sko... sit hér og blogga þétt í því... :)

Elska ykkur öll

Músin... Með fullan matinn af bjór!

þriðjudagur

Þetta er nú alveg mega sega skrítið. Nú er ég að blóka á tölvu kallsins en eins og glöggir fylgjendur mínir vita, þá á hann iBook. Nú fer ég inn á blóksíðuna og þá er bara allt á kínversku! Og ég verð að játa mig seka að því að ég kann ekki mikið í kínversku, en ég reyndi að komast í gegnum þetta allt saman og komst inn á blókið mitt. Ekki nóg með það, ég þarf alltaf að skipta yfir á íslensku þegar ég byrja að skrifa svo ég geti skrifað íslenska sérstafi. Ég er nú farin að efast um gæði makkanna. FM-makkanna? Nei það voru Hnakkar...

Anywho... Það sem ég ætlaði að segja er að ég er búin með næstsíðustu önn mína í framhaldsskóla. Hver hefði haldið!? Kláraði prófin í morgun með því að semi brillera á íslensku 503 prófi úr bókmenntasögu síðust aldar. En það var ekki svo slæmt. Ég er að minnsta kosti ekki fallin!

Fyllerí á morgun? ég spyr. Ekki í kvöld að minnsta kosti. Ég gerðist svo fræg að vaka í fyrsta skipti í gærkvöldi við að læra. Aldrei hef ég vakað óhóflega lengi áður til að læra. Eða að minnsta kosti minnir mig ekki. En það er nú allt önnur ella...

Ætla að fara að lesa The Curiouse Incident of a Dog in the Night-Time... sem útlegst á íslensku sem Undarlegt Háttarlag Hunds um Nótt. Hef heyrt hún sé góð en ég þori ekki að dæma af fyrstu 10 blaðsíðunum.

Lifið í fríi en ekki spíi...

Músin... Sem veit ekki hvort það var Sigurður Einarsson eða Sigríður Einarsdóttir!

sunnudagur

A! gleymdi

góður linkur atarna

http://www.hrebbna.tk
Læri læri tækifæri!
Eins og fróður mörður sagði eitt sinn.

Nú er ég búin að sitja á bóksafni ónefnds fjölbrautaskóla hér í bæ í 11 og 1/2 og rotna og læra um okkar ástkæru og ylhýru rithöfunda í gegnum öldina sem leið. Hver hefði vitað að við ættum svona marga klikkhausa, hasshausa og rasshausa? Nú, ekki ég. Ég á víst að fara í próf í fræði sálar á morgun en ég er sama og ekkert búin að læra... Kenning Piaget anyone? Hjálpi mér allir heilagir!

Það hefur ríkt óvenju mikil þögn á þessu bókasafni í dag. Það gæti verið lægðin yfir landinu... það gæti líka verið þessi heilagi dagur sem sunnudagur er. En hvað sem öðru líður, þá hef ég einungis þurft að sussa svona þrisvar... jafnvel fjórum sinnum, en það er líka bara algjört lágmark miðað við suma dagana. En spáum í það að ég á kortér eftir af þessari unaðslegu jólavinnu minni og svo er ég gott sem komin í frí.

Jólasveinninn kom í gær... ég gleymdi að setja skóinn minn út í glugga... ætla að gera það í kveld... Ætli hann muni eftir mér...? Hversu óþekkur þarf maður að vera til þess að fá kartöflu í skóinn hvern einasta dag frá hverjum einasta jólasveini yfir ein jól? Maður spyr sig!

Kveðja úr bókmenntalífinu

Músin, með fullan matinn af rugli!
Lægð og heilaskaði

Það er lægð yfir landi ísa í dag... og ég finn það í hjarta mínu. Og reyndar höndum líka! Það er skítkallt í þessari tölvustofu niðri í skóla. En ég er samt spræk að vanda. Vaknaði klukkan níu í morgun að sjálfsdáðum... Já, þú last rétt kæri vin, að sjálfsdáðum, engin vekjaraklukka og ekki neitt. En það er nú allt önnur Ella.

Reyndar vaknaði ég fyrst eitthvað fyrr... Kannski svona um sjö leytið. Þá var ég að reyna að ná sambandi við Ragga... svona eftir á að hyggja er kannski ekki skrítið að hann hafi ekki svarað mér í fyrstu þrjú skiptinn... Ég kallaði hann nefnilega mömmu. Ég sagði þrisvar mamma við hann áður en ég fattaði að þetta var bara alls ekki rétt nafn sem ég var að nota og þá sagði ég raggi og viti menn! Þá svarði kallinn. En þetta er allt í lagi, hann var ekki að sofa yfir sig.

Nú, eins og áður sagði, þá vaknaði ég klukkan níu og skundaði í ræktina, með svona ca. hálfan líter af vatni í maganum og 37,3 cheerios hringi í maganum. Þar var þessi annars ágæti karl sem var að labba á hlaupabretti og horfa á eitthvað dauðarokk á popptíví. Nú ég spurði kauða hvort hann hefði nú mikið á móti því að ég skiptium stöð... "Nei, í guðanna bænum! Það er allt í lagi" svaraði hann að bragði. Ég hef löngum furðað mig á því hvað fólk er að pæla þegar það kemur með tveggja ára krakkana sína í ræktina. Svo fer það bara að sprikla eins og ekkert sé sjálfsagðara og krakkarnir dúlla sér við að reyna að lifta lóðum sem eru svona um það bil jafn þung og þau sjálf. Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst þetta kjánalegt.

Hahaha! Ég er með stjörnumerki í andlitinu! Það er vinnukonurnar þjár. Það eru sem sagt þrjár bólur í nokkuð beinni línu (nokkuð beinni sko) yfir andlitið mitt og ég verð að viðurkenna að það er asskoti kúl. Ég er svo kúl ég er að deyja! Svo er ég líka með augabrúnir sem minna á ónefndan aðila sem þykist vera rosalega kúl í skólanum og hefur meðal annars setið fyrir í auglýsingum tískuveruverslunarinnar seitján...

Tútelpipp!

Músin... Ha? Próf?

laugardagur

Þar sem alveg óhemju margir eru farnir að skoða blókið mitt, þar með talin Bryndís, ástkær samstarfsmaður minn og meðleikari, er ekki úr vegi að nauðsynlegt sé að setja nokkur orð hér inn.

Bókasafn og garðbæingar
Það er búið að vera alveg svívirðilega mikið að gera hjá mér síðustu daga og vikur og jafnvel mánuði. Núna er ég í prófum, búin með 1, 4 eftir! Ætli Laxness viti af þessu?
Nú, eins og flestir vita er ég að vinna á bókasafninu í skólanum, sem er alveg jävla fínt, því ég get bara lært á launum, talandi um lúxus. En það er ekki frásögu færandi, nema hvað, að ég var að vinna á síðastliðinn þriðjudag, sem einmitt vildi svo til að var síðasti dagurinn fyrir fyrsta prófið.
Nú var það svo að margir eldri bekkingar voru að læra fyrir sögupróf, próf sem hefur verið á margra vörum upp á síðkastið, og ekkert um það að segja, annað en það að það er viðbjóður. Nú eins og áður hefur verið nefnt, þá voru margir eftir bekkingar að læra, og ég komst að því að upp til hópa eru garðbæingaunglingar ekkert annað en ofdekraðir, hallærislegir, yfirgengilegir hálfvitar, (taki til sín sem eiga og engin móðgun við þá sem ekki taka til sín og ekki eiga) sem láta innflytjanda úr kópavoginum tína upp eftir sig eftirfarandi:
  • nammibréf
  • kókflöskur
  • hálfétnar samlokur
  • strokleður
  • hálfétin epli
  • nammibréf sem einhverra hluta vegna komst upp í bókahillu!
  • tyggjó
  • ókláraðan skyr.is drykk
  • opna, en þó fulla kókómjólk
  • smátt rifin nammibréf, sem voru dreifð snyrtilega um gólfið
  • hálfétnar skólabækur
  • misheppnuð útprent
  • notaðann smokk
  • eyra
  • jólaljósaseríur
  • vettlinga
  • pennaveski og penna og fleira pennalegt
  • skammarlegt skólablað sem ber það frumlega heiti Kind
  • hálfklárað íste
  • kynfræðsluteikningar af töflum (svipaðar þeim sem maður lék sér að að gera upp á töflu þegar maður var í fimmta bekk... muniði?)
  • klósettpappír
  • og svo margt margt fleira, sem varla tekur að nefna hér.

En nóg um það. Þá vitiði skoðun mína á þessum kapítalista afkvæmum sem vita ekki hvað það er að fullorðnast.

Kveðja

Músin, í besta skapi í heimi!

P.s. Þó svo að ég búi í garðabæ þá er ég ekki Garðbæingur (ég gæti nú ekki verið að drita yfir sjálf mig er það?) heldur er ég garðabæjarbúi. Hins vegar er ég stoltur Kópavogingur! og hananú!!