þriðjudagur

JÁ! Búin að skreyta jólatréð og heilir 3 dagar til jóla! Detti mér allar dauðar... Maður hefði nú einmitt haldið að Jónas hefði verið maður og keyrt til vinstri, en allir góðir hlutir verða að enda með slæmum hlutum!

Ég er komin með mitt eigið jólatré. Það er voðalega sakleysislegt og krúttilegt. Ljósleiðarar gætu gert mann skakkann, eða geðveikan, eða hvort tveggja ef horft er of lengi. En þegar ég setti þetta tré upp þá mundi ég eftir einni kvöldstund þegar ég var á að giska í tíunda bekk. Hér kemur ein lítil jólasaga:

Hvernig Músin uppgötvaði jólin

Það var jólin 2001 ef ég man rétt. Músin var búin að skreyta fyrir jólin, en nú var skólinn kominn í jólafrí og ekki mikið að gera. Sem oftar sat Músin að leiðindum með félögum sínum, er uppástunga sú, að fara á fyllerí í ótéðum garði þar í bæ stakk upp hausnum. Músinni og félögum var ekki lengur til setunnar boðið, heldur örkuðu í téðan garð á strigaskóm og allt of þunnum og hallærislegum fötum. Þegar á staðinn kom uppgötvuðu Músin og félagar að þau höfðu ekkert áfengi. Leitað var á náðir samfylleríinga og þar sníktir nokkrir sopar. Ekki leið á löngu, eða um það bil eftir að 1 bjór og nokkrir sopar af ónefndu glundri höfðu rutt sér leið inn um varir Músarinnar, að hún var orðin helölvuð og stóð vart í lappir. Það er ekki frásögu færandi því því músin hefur löngum verið orðuð við fugltegund þá er ber íslenska heitið hæna í sambandi við áfengisdrykkju, einkum á yngri árum.
Músinni og félögum þótti tímabært að fara heim, því lágur aldur gerði það að verkum að ekki mátti vera úti lengur en, tja, við skulum ekkert láta það í ljós. Eftir u.þ.b. kortérs göngutúr heim á leið í frosti og viðbjóði, var Músin fyllri en nokkru sinni áður, arkaði inn, bauð samleigendum (foreldrum, ef þið viljið hafa það þannig) að eiga góða nótt og strunsaði svo inn í herbergi sitt. Þar lagðist Músin niður og horfði á áðurtéð jólatré glitra svona fallegum ljósleiðaraljósum og hugsa:
,,Vaaááá... En hvað þetta er fallegt..."
og ekki var laust við að nokkur tár féllu, jafnvel nokkur sms til ónefndra aðila sem Músin ku hafa verið ástfangin af í þetta skiptið. Það má segja að í þessu óskilgreinda ástandi, milli svefns-vöku-drykkju-edrús-skekkju-bykkju, hafi Músin uppgötvað jólin fyrir alvöru. Eftir þessa reynlsu varð Músin aldrei söm aftur, hún leit lífið öðrum augum og gerði allt í sínu valdi til að láta hætta að kalla sig hænu og breiða út boðskapinn; Ljósleiðaratré eru framtíðin, látið ekki náttúruna blekkja ykkur með sínu lífræna, græna, dauðlega viðbjóði.
Krakkar mínir, þetta er saga sem við ættum öll að læra af. Hversu miklar hænur sem við erum.
Farið varlega í jólaölið, þið gætuð orðið full!
Músin, með fullan matinn af Nóakonfekti

Engin ummæli: