föstudagur

Músin snýr aftur... og nú í sumarfríi!

Já gott fólk, ég er komin í sumarfrí. Enginn meiri skóli í ca. þrjá mánuði! Ég fagnaði þessu rækilega með því að leggjast upp í sófa um leið og ég kom heim og horfa á Beautiful mind, en hana var ég að sjá í fyrsta skipti. Ég get alveg mælt með henni. Það var heldur ekki laust við að það kæmu nokkur tár á köflum! En svo þegar myndin var búin hélt ég að ég væri orðin eitthvað veik á geði. Það fyrsta sem mér datt í hug að gera var að fara að lesa! Við erum að tala um það að ég sé búin að lesa í heila viku samfleitt, ég hef örugglega lesið eitthvað í svefni líka, og þegar síðasta prófið er búið langar minni bara að fara að lesa!!! Þetta er ekki heilbrigt. En allavega, þá gat ég ekki svalað lestrarþorsta mínum sökum þess að ég er búin að lesa allar bækur á heimilinu. En það lagast vonandi bráðum því að Raggi var búinn að lofa því að lána mér Heavier than heaven, ævisögu Kurt Cobain, og bíð ég nú spent! Hey, já.... hann lenti einmitt fyrir ca. hálftíma ef að áætlun hefur staðist. Það er eins gott að hann muni eftir því að lána mér bókina (þetta er svona vinsamleg áminning Raggi).

Noregur
er á næsta leiti... leyti... ég man aldrei hvort það er! En allavega, þá eru ekki nema fjórir dagar þangaði til ég fer ef ég tel ekki daginn í dag með. Það er gaman. Ég fékk samt vægt svona menningarsjokk í gær þegar mér var sagt að ég þyrfti að taka með mér fín föt (sko alveg spari spari) til að vera í á þjóðhátíðardeginum, 17. maí. Það veit enginn hvað 'fínt' þýðir á þeirra mælikvarða og ætli það endi ekki bara með því að maður dragi fram fermingarkjólinn! Nei, það væri nú kannski fullmikið. Hann er ekki einu sinni fínn! En okkur er nú enn stærri vandi á höndum. Sökum misskilnings milli Lenu vinkonu minnar og Marthine, einnar ágætrar norskrar stúlku, þá hefur Kristrún, ein af mínum betri vinkonum, verið sett í gistingu á einhverju afskekktu bóndabýli í hálfs klukkutíma fjarlægð (ætli það sé á bíl, traktor eða í hestakerru?) hjá strák sem fór ekkert lítið í taugarnar á okkur þegar þau voru hérna. Greyið strákurinn er bara bóndi! Og hún er svona að hóta okkur því að hætta við að fara ef að Lena kippir þessu ekki í liðinn strax! og hananú! Þetta yrði svolítið skelfilegt ef hún ætti að gista þarna.... þá neiddumst við til að vera mikið með grey stráknum. Ekki misskilja mig, ég er ekki svona vond við alla sem mér er illa við (reyndar finnst mér svolítið leiðinlegt að vera að baktala hann svona) en þessi maður er bara algjörlega óþolandi!

En annars, bara góða helgi og við heyrumst...

Engin ummæli: