fimmtudagur

Ég hef komist að því að Norðmenn eru EKKI tæknivæddir og ég gæti verið að grafa mína eigin gröf með því að fara þangað. Greyið strákurinn sem er að koma til mín veit ekki einu sinni hvað msn er! En nú hef ég leitt hann inn í siðmenninguna og bjargað honum frá glötun.

Stemningin fyrir þessu er samt ágæt. Allir spenntir að fara í skoðunarferð um Álftanesið og sjá "höllina" sem Óli grís á heima í. Greyin, þau halda að hann búi í höll og við kippum okkur ekki einu sinni upp við það að mæta honum í Fjarðakaup. En toppurinn á ferðinni er nú sá að fara í bláa lónið. Allavega er minn alveg að tapa sér hann hlakkar svo til.

Samkvæmt því sem þetta fólk er búið að vera að senda okkur halda þau að við borðum svið í öll mál, eins og einn sagði í bréfi til vinkonu minnar; "I eat most food but I don´t eat that strange sheep head thing". Nú tel ég mig vera alveg íslending í húð og hár, allavega sýnir íslendingabókin góða það, en ég vil bara taka það fram að ég borða EKKI svið, hvað þá sviðasultu og ég vil ekki að útlendingar haldi að það sé það besta sem við borðum. Ég er að hugsa um að fyrirbyggja misskilning við mína gæja og láta þá barasta vita að ég hef aldrei borðað svið og að það verði sko ekki á boðstólnum þegar þeir koma hingað.

Ég neyðist til að hætta. Tími dauðans kallar, danska, og ég held mér veiti ekki af því að fara og læra nokkrar óreglulegar sagnir. Óskið mér góðs gengis.....

Lifið heil!

Engin ummæli: