fimmtudagur

Henni er lokið... loksins!

Ég var að klára bókina og ég er orðlaus. Ég skil ekki að nokkur maður geti gengið í gegnum ævi eins og Kurt gerði. Enda drap hann sig á endanum, en samt. Maður hlýtur að spyrja sig hvort þetta sé allt sannleikur sem er sagt frá, því sumt er svo ótrúlegt að það nær engri átt. En það er nú oft sagt að sannleikurinn sé ótrúlegri en skáldskapurinn. Þess vegna setja nú rithöfundar oft atvik sem hafa í alvöru átt sér stað í sögur sínar, breyta bara stað, stund og nöfnum. Það er mjög sniðugt.
Ég fór áðan og ætlaði að fá bókina Býr Íslendingur hér? að láni á bókasafninu og hringdi meira að segja á undan mér til þess að vera viss um að hún væri til. Þegar ég mætti á svæðið var hún víst ekki til nema sem hljóðbók. Ég hef aldrei prufað að hlusta á hljóðbók, en ég ákvað bara að prufa þetta. Vonum bara að það sé ekki einhver leiðinleg manneskja að lesa.

Ég mun flýja amstur stórborgarinnar um helgina og leggja land undir fót í fyrstu útilegu sumarsins. Ég hlakka ólýsanlega mikið til, enda eitt það skemmtilegasta sem ég geri að sofa í tjaldi og þurfa að sækja vatn á hverjum morgni! Æði!

Bið ég ykkur vel að lifa þangað til næst.

Engin ummæli: