miðvikudagur

Eminem og kúlistar bandaríkjanna

Ég var að horfa á DVD í annað skipti á Imbrudögum í morgun (ég sótti nú alveg um að gera eitthvað annað en það var allt annað fullt sjáiði til). Myndin sem sýnd var í morgun var mun skárri en sú sem var í gær. Allavega hélt hún stemmingu í liðinu. Sú mynd heitir 8 Mile og er með rapparanum knáa Eminem fyrir þá sem ekki fylgjast með. Ég horfði á myndina með mikilli eftirtekt og hún reyndi reyndar (vó... næstum því eins!) alveg gífurlega á heilann því það getur verið hörku vinna að skilja þessa gangstara þegar þeir eru farnir að tala "street"-málið svokallaða. En ég er ekki hæf til að fara að gagnrýna þess mynd því það mundi bara enda illa. Hins vegar vil ég koma því á framfæri að ég held að svona myndir hafi alvarleg áhrif á tungu þeirra sem þær horfa. Þegar myndin var búin gekk ég í rólegheitunum um götur hverfisins áleiðis heim, alveg ótrúlega frábærlega mögnuðu veðri, og tók þá allt í einu eftir því að ég var að hugsa á ensku, og ekki nóg með það, ég var sko að hugsa á "street"-málinu þar sem orð eins og 'shit' og 'fucking' komu víðs vegar við sögu. Ég reyndi strax að útrýma þessu úr huganum og byrjaði að hugsa um Laxdælu svona til að halda í þetta alíslenska sem ég hef í mínum gagnagrunni ef svo má segja. Annars fannst mér myndin alls ekki svo slæm!
Umsjónarmenn Imbrudaga stóðu sig mun betur í dag en í gær. Reyndar var hún Sigga húsvörður ekki ánægð með framistöðu nemenda í sambandi við hreinlæti og skammaði hún okkur hressilega og bannaði okkur að vera með neitt sem heitir matur og drykkur inni í fyrirlestrarsalnum. Svo óskaði hún okkur góðrar skemmtunar og brosti sínu blíðasta. Æj, hún er svo mikið krúsíbúsí! ENNN... Nemendaráðið dó ekki ráðalaust enda ráð og ætti að vita eitthvað í sinn haus, og lét okkur bara hafa gosið sem við borguðum fyrir í lok myndarinnar. Mjög gott, verrí gúdd!

Fuglasöngur og Esjan okkar góða

Í gærmorgun þegar ég vaknaði hress og kát klukkan sex og fór út, var sólin byrjuð að koma upp! Það var geggjuð sjón að sjá þegar hún kom upp fyrir aftan Esjuna sem sást reyndar ekki fyrst, en kom svo í ljós en þá var hún bara svartar útlínur. Það var magnað! Svo í gærdag og í dag er ég búin að njóta fuglasöngs út í hinar ystu æsar. Já, það má sko með sanni segja að vorið sé að koma og mér er alveg sama þó að fólk sé visst um að það snjói um páskana. Það er að koma vor! Allavega hjá mér :)

P.s. í þessum skrifuðu orðum eru litlir sætir fuglar að eta úr garðinu mínum... mússímússímússí!

Engin ummæli: