mánudagur

Heyrnarleysi smitandi???

Ja, hérna, hér. Eins og flestir sem eru mér nánir vita þá er ég nú bara vita heyrnalaus á hægra eyra... Nú vaknaði ég í morgun eftir góðan nætursvefn og skemmtilega uppákomu í gærkveldi og þá var kærastinn bara líka orðinn heyrnalaus á hægra! Þessu hef ég aldrei lent í. Mér datt svona í hug að þetta væri herra almáttugur að leyfa honum að finna hvernig það er að vera ég, heyra ekki nema hálfa heyrn og vera hálf asnalegur í einn dag. Hver veit?

Ég hins vegar er komin í jólafrí, byrja ekki að vinna fyrr en á föstudaginn og veit lítið hvað ég á við mig að gera. Í rauninni ætti maður að þrífa húsið hátt og lágt, vinna sér inn punkta hjá húsráðendum og svona... en það eru takmörk fyrir því hvað maður nennir miklu... hm...

fimmtudagur

uuuu... hver bíður sig fram í að þýða 4 og hálfa blaðsíðu frá spænsku yfir á íslensku? Sá hinn sami fær stórt knús og koss frá mér... :)

P.S. Þarf að vera tilbúið í fyrramálið!

miðvikudagur

Forritun...

Ég varð vitni að ansi skemmtilegu atviki í fyrrakveld. Þannig er mál með vext að ég var stödd heima hjá kærastanum mínum en hjá honum var vinur hans sem hefur gaman að forritun. Hann var sem sagt að hjálpa mínum með forritunarverkefni. Nú er komið þar við sögu að galsi er kominn í mannskapinn. Einhver fer að tala um fyllerí og þá dettur Garðar (forritaranum) í hug að forrita fyllerí! Og svo forritaði hann vísindaferð og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var, ótrúlegt en satt, fínasta skemmtun og þakka ég Garðari kærlega fyrir gott framlag í gráan hversdagsleikann.

mánudagur

Datt svona í hug að láta vita af því að ég er ekki dauð úr öllum æðum enn. Skólinn er hins vegar á góðri leið með að draga mig í gröfina.

Ég uppgötvaði nýtt um helgina. Ég er bara tiltölulega nýbyrjuð að drekka rauðvín (júlí 2003) og ég er ennþá að læra inn á þetta allt saman. Vill svo skemmtilega til að ég á kærasta sem vinnur í vínbúðinni og hann keypti líka þetta fína rauðvín á laugardaginn. Svo kynnti hann mig fyrir rauðvíni og ostum. Ansi góð blanda þar á ferð verð ég að segja. Hann vill meina að það sé eins og gott hjónaband. Ég vona samt að mitt hjónaband verði ekki jafn illa lyktandi og ostar og sterkt eins og rauðvín...

Gerðist menningarleg í gær þegar ég fór niðrí bæ á kaffihús og fékk með vöfflu með ís og kakó. Svo var haldið í bókabúðina í Austurstræti og skoðaðar bækur í hátt í klukkutíma held ég. Annars var ég ekki mikið að taka tímann. Þar sá ég bók sem er bara með ljósmyndum af blöðum úr dagbók Kurt Cobain og duttu mér þá allar dauðar lýs úr hári. Ég hélt að þetta væri svona prívat og persónulegt! Ég vil bara segja það hér og nú að þegar ég verð fræg og dey sorglegum dauða, þá vil ég láta brenna dagbækurnar mínar með mér! Og ekkert múður með það. Ég vil ekki að aðrir lesi mínar geðveiku huxanir (sem eru jú enn geðveikari en ég deili með ykkur hér).

Tseek, Tseek.
Ég er með fjörfisk í hægra auganu. Ég held það boði eitthvað slæmt. Ég er reyndar að fara í stærðfræðipróf á eftir. Það ER slæmt.

fimmtudagur

Watch out!

Spurning um að rýma götur bæjarins, því ég er komin með bílpróf! NOOOOOOO....! Verð nú að viðurkenna það að ég var næstum því fallin... hmmm... enn meiri ástæða til að forða sér! En það var nú ekki meiri hætta en svo að ég gleymdi bara einni stöðvunarskildu (stoppaði aðeins of seint) og einum hægri rétti (fékk líka plússtig fyrir hægrirétt) og svo var það +10 á 30 götu... smá misskilningur í gangi þar. Hm-hm...

Annars er bara allt skemmtilegt þessa dagana. Var að komast að því áðan að ég þarf að vinna upp u.þ.b. 2 vikur af spænsku! jibbíííí...

En annars bara góða helgi!

föstudagur

Ég er heppnasta manneskja í heimi! Ég á bestustu vinkonur í heimi!

Í gær, þann 18. september, átti ég afmæli. Ég var nú ekki búin að gera ráð fyrir neinum hasar degi, bara þetta venjulega; bera út, fara aftur að sofa, fara í skólann, læra og reyndar borða með vinkonunum kvöldmat. En það kom sko annað upp á daginn. Þetta var sko besti dagur sem ég hef á ævinni upplifað, og það afmælisdagurinn minn!

Þetta byrjaði þannig að ég var að gera mig tilbúna að fara að bera út. Stóð mygluð fyrir framan spegilinn inni á baði og var að bursta tennurnar. Þá kemur mamma inn og skipar mér að koma aðeins fram. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið! En ég er vel upp alin og ég hlýði mömmu minni náttúrulega svo ég fór fram. Í andyrinu stóðu vinkonur mínar, 5 talsins, dressaðar upp í dúnúlpur og með vetlinga og læti. Þær sungu fyrir mig afmælissöngin og voru með litla muffinsköku með kerti á sem ég blés á í gegnum tárin (já, ég fór að gráta!). En það var ekki allt búið enn... ónei.
Fyrir utan voru þær komnar með innkaupakerru (þökkum 11-11 í garðabæ fyrir veitta aðstoð) sem þær voru búnar að fylla af púðum og teppum. Í hana átti ég að setjast og svo keyrðu þær mig hringinn sem ég ber út í og báru sjálfar út! Pælið í frábæru fólki að láta sér detta þetta í hug! Eftir þetta litla ævintýri borðuðum við heitar bollur í morgunmat með allskonar góðu áleggi.

Í gærkvöldi mættu þær svo til mín klukkan átta með geggjaða afmælisgjöf, allar í fínum fötum og með afmælishatta á höfðinu... já, og ég fór aftur að gráta. Við borðuðum besta mat í heimi og skemmtum okkur konunglega!

Þetta var frábær dagur!

Takk stelpur :oD

þriðjudagur

bleah...

Skemmtilegt er skrifað með tveimur emm-um.

Bílpróf

Tók það áðan. Stóðst. Og stelpan var bara með eina villu! Pælið í því! Þvílík og önnur eins hamingja. Ég ætla sko að mastera verklega prófið!

45 mínútna...

fyrirlestur um efnishyggju bandaríkjamanna... finniði annan betri!

Ég á ammæli á fimmtudaginn...

miðvikudagur

Ég er horuð!

En ekki misskilja mig. Líkamsþyngd mín hefur lítið breyst. En ég er hinsvegar allhoruð í nefinu og með hálsbólgu höfuðverk og beinverki. Eeeen... Ég er svo mikill nagli að ég mæti í skólann þó að svona smáræði hrjái mig!

Ég á afmæli eftir nákvæmlega 8 daga og vonandi fæ ég bílpróf þá! Þá verð ég ekki lengur lítil í augunum á kærastanum... Ég er allavega búin að liggja yfir ökunámsbókinni og búin að reyna að keyra eins og ég mögulega get. Fór á rúntinn með afa gamla á sunnudaginn og við bökkuðum saman í stæði. Við skulum bara segja að ég þurfi að huga aðeins betur að þeim þættinum áður en ég fer í prófið.

Skólinn er alveg að gera mig vitlausa. Það er svo leiðinlegt að læra heima. Reyndar er fínt í tímum, get ekki kvartað undan því. Var að borga tæpan 20.000 kall fyrir einn áfanga! 3 einingar! Er ekki allt í lagi???

Veikindakveðjur,

Músin!

þriðjudagur

Susss... Eruði að trúa þessu?

Ég hef ekki bloggað í heilan mánuð! Hvað er í gangi? Það hefur margt og mikið gerst á þessum mánuði. Ég fór til Akureyrar um verzlunarmannahelgina og það var ákveðin stemmning... frekar ælótt fyrir minn smekk samt. Svo varð stemmningin bara súr síðast kveldið en engu að síður eftirminnileg... hmmm...

Ég fór til Eyja Vestmanna vikuna fyrir skóla. Þar var spilað á hljóðfæri daginn út og inn, vaknað klukkan 8 á morgnana, byrjað klukkan níu og ekki hætt fyrr en um miðnætti á kveldin. Ég var líka komin með myndarlegan sogblett á hálsinn og sigg á puttana (sigg??? þetta getur ekki verið orð!)!

Svo tók skólinn við og gaman frá því að segja að ég var komin með æluna upp í kok í öðrum tíma á fyrsta degi. Ja hérna hér! Þann 26. ágúst var síðan haldið í höllina á Foo Fighters tónleikana langþráðu! Það var gjeðt! Svo er líka gaman frá því að segja að ég fór með kærastanum mínum á tónleikana... Hahahaha! Já, ég á kærasta. Hver hefði haldið... Búin að vera saman í 5 vikur og allt að verða vitlaust bara. Skondið hvernig hlutirnir æxlast alltaf. Og í sambandið við þetta vil ég bara segja að það borgar sig að gera sig að fífli, vera uppáþrengjandi, pirrandi og láta ekki deigið síga því maður fær það sem maður vill á endanum, bilív mí. Það virkaði!

Annars er þetta allt saman frábært. Ég á afmæli eftir 16 daga og þá ætti ég að fá bílpróf en ég fór eitthvað á mis þarna í sumar og á eftir að taka ökuskóla tvö og allt þannig að þetta dregst líklega eitthvað en það er líka allt í lagi. Ég hef allt hérna í Garðabænum. Hver þarf bílpróf??

Ég bið að heilsa öllum! Skal reyna að blogga meira og standa mig í stykkinu (því ótrúlegt en satt þá hef ég fengið kvartanir yfir þessu framtaksleysi í mér!)

Havde!

föstudagur

Baaaaa...!

Það er ákveðin huggun í því hvað ég er búin að blogga lítið... Þá veit ég að ég á mér ákveðið líf! En maður verður að láta vita af sér annað slagið. Ég er komin heim frá Krít. Þar var ekkert gert nema að liggja í sólbaði í 2 heilar vikur og ég er samt ekki brúnni en þeir sem eru bara búnir að vera að vinna í sólinni hérna heima í sumar. Bömmer! Þjóðhátíð í Eyjum er hafin... ég fer ekki þangað. En það eru svona smá sárabætur að ég fer til Akureyrar að svalla... Skólinn byrjar eftir 20 daga... 20 DAGA!!! Hvað varð um sumarið??? Ég ætlaði að fara í 20 útilegur en er bara búin að fara í 2... Get ekki beðið eftir Foo Fighters tónleikunum og um jólin verð ég hálfnuð með skólann! Núna er ég farin að bulla.

Heyrumst!

fimmtudagur

Búin að svíkja loforð... tek á mig alla sök

Ég lét þau stóru orð víst falla fyrr í sumar að ég mundi blogga á hverjum degi, vinum mínum til dægrastyttingar og yndisauka. Ég hef víst svikið það loforð. En þá er ekki annað að gera en að reyna að bæta sig, þó ég nenni þessu nú varla.

Ósanngjarn heimur

Eftir miklar vangaveltur hef ég komist að því að allt er ósanngjarnt í henni veröld. Ég þekki fólka sem gefa ekkert frá sér en fá allt í staðinn. Svo þekki ég líka fólk sem gefur allt frá sér en fær sama og ekki neitt í staðinn. Það þykir mér miður. Auðvitað er erfitt að skipta gæðum heimsins jafnt á milli allra, en það er eiginlega ekki það sem ég er að tala um. Það sem ég er að meina er fólk sem er gott við alla, vill ekkert nema gott, brosir allan daginn og er hið fallegasta innan frá. Fáum dettur í hug að gjalda þessu fólki í sömu mynt. En það er oftast fallega, vinsæla og fræga fólkið sem allir vilja allt fyrir gera, bara af því að það er fallegt, ekki af því að það er gott. Hvursu ósanngjarnt er það?

miðvikudagur

Grátur og mikill harmur

Ég er alveg brjáluð út í einn ákveðinn hugara. Hann gerðist svo djarfur að segja að Saybia væri svipað og Robbie Williams! Hversu lágt legst fólk?? Og bara að gera Robbie þann greiða að segja hann á jafn hátt plan og saybia... eg á bara ekki eftir að komast yfir þetta!

þriðjudagur

Ekki með sjálfri mér!

Ég hef ekki bloggað lengi (vá! þrír dagar... hræðilegt!). En mér er svosum alveg sama... ekki mikið að segja frá. Ekki einu sinni núna. Í dag er 1. júlí og það þýðir bara eitt! Payday! Og ég verð líklegast búin með öll launin áður en næsta vika gengur í garð... en það er líka allt í lagi. Hver þarf peninga anyway??

Hætt.

föstudagur

Naunau!

Komið nýtt útlit á blogger síðuna! Skemmtileg tilbreyting í annars tilbreytingarsnautt líf mitt.

Búin að redda'essu

Ég er búin að redda miðakaupara fyrir tónleikana. Það mun vera hinn yndislegi Halli sem ætlar að fórna sér í þetta mikilvæga hlutverk. Fögnum honum. Þá á bara eftir að finna einhvern til að koma með mér á tónleikana... úps!

Hróaskelda 2004

Dagana 1. til 4. júlí 2004 verð ég vant við látin. Mun ég verða stödd í ríki danaveldis að hlýða á rokk og annað skemmtilegt sem verður varpað út á Skeldu Hróa. (hey, ég er þó allavega búin að finna mér ferðafélaga fyrir það!)

Annað hef ég ekki að segja nema að ég uppgötvaði það mér til mikillar skelfingar að ég þarf að fara í sund fram á miðvikudag! Er manni aldrei hlýft??? Ég þarf minn tólf tíma svefn og ég þarf hann núna!!!

miðvikudagur

Foo Fighters á Íslandi! Jibbíkóla!

Í morgun vaknaði ég eins migluð og þreytt og hægt er að gerast á miðvikudagsmorgni eftir sex tíma svefn. Ég var alveg tilbúin að upplifa þennan dag bara innan veggja herbergis míns og þá helst undir sænginni minni. En ég drullaðist fram úr. Skapið var ekki lengi að breytast í himnasælu þegar ég leit á moggann. Það er staðfest að Foo Fighters eru að koma til Íslands. Mikil gleði og mikil hamingja. Ég held að þetta sé smá svona sárabætur sendar frá guði rokksins vegna þess að ég kemst ekki á Hróaskeldu þetta árið. Eina vesenið er það að ég verð ekki á landinu þegar miðasalan byrjar og ef ég ætla að kaupa hann þegar ég kem heim get ég alveg eins gleymt þessu. Þannig að núna lýsi ég eftir sjálfboðaliða sem er tilbúinn að leggja það á sig að fara líklegast í biðröð og kaupa handa mér eitt stykki miða á þennan stórmerka viðburð í íslensku tónlistarlífi. Sá hinn sami mun fá eitthvað sætt frá mér... t.d. koss á kinnina, þrjá bjóra eða eitthvað álíka. Tilbúin að íhuga tilboð.

Takk fyrir það.

P.s. Sundlaugarkonan ógurlega með grænu blúndurnar á hausnum var svo móðguð á mér í gær að hún hefur ákveðið að vera komin upp úr lauginni þegar ég mætti á svæðið. Hún var í óða önn að þurka sinn rúsínulíkama þegar ég mætti fersk í sund.

þriðjudagur

Brjálaðar konur með bróstsykur í hárinu!

Ég fór í sund í morgun. Ég fór líka í sund í gær. Ég hef líka farið nokkrum sinnum í sund áður á morgnana og það eina sem ég sé eru gamlir kallar og, ja, kellingar sem halda að þau domineiti sundlauginni! Svo fór ég að synda í mínum rólegheitum bara voða djollí eitthvað. Þá urðu mér á mistök. Sjitt hvað ég var nálægt því að vera drepin, og það af gamalli kellingu með græna blúndusundhettu og í rósóttum sundbol. Hún sendi mér svo hrikalega stingandi augnaráð, þegar ég, sem var djúpt sokkin í það að synda, synti í veg fyrir hana. Ég var samt í meters fjarlægð en þetta var of gróft. Þessi einstaka kona heldur í alvöru að hún eigi sundlaugina og enginn annar. Hvað meinar fólk með þessu??? Ég ætla samt að halda áfram að mæta í sund og láta unga lýðinn taka yfirhöndina í þessu annars rotnandi sund-samfélagi. Annars er ég bara komin með lit og sundbolafar og læti. Bara orðin rjóð í kinnum og hele klabben! Sumarið er góður tími.

Það sýður allt upp úr núna!

Já... Það er Hróaskelda enn og aftur. Mig langar. En ég fer ekki. Ekki núna. En ég vil samt láta ykkur vita að ég verð fyrsta manneskja til að kaupa mér miða á næstu Hróaskeldu hátíð. Ekki spurning!

Takk fyrir.

laugardagur

Kvennahlaupið

Í dag er sá dagur sem brjálaðar konur koma saman og hlaupa/labba/skauta einhverja vegalengd hérna í Garðabænum. Ég veit að það er ljótt að segja þetta en mér fannst eins og hvert sem ég liti væri risa rassar og lafandi brjóst svo langt sem augað eygði. Ætli þetta sé dagurinn sem feitar konur ákveða að hreyfa sig svona í þetta eina skipti, alveg ótrúlega duglegar, ganga þarna einhverja tvo kílómetra og er ótrúlega ánægðar með árangurinn, fara svo heim í kaffi þar sem boðið er upp á kaffi og kökur með því. Nei, ég segi svona. Ég er ekki svona vond í mér en þetta er samt alveg ótrúlegt.

fimmtudagur

NAU!

Haldiði að mín hafi ekki bara verið númer 2000 (!!!!) á heimasíðunni hans Ragga hérna rétt í þessu! Ég vil samt óska honum til hamingju fyrir að hafa náð þessum svaka fjölda inn á síðuna! Til hamingju Raggi.

Súkkulaðikaka dauðans

Í gær bakaði ég súkkulaðiköku dauðans. Hún var stóóóór. Og það var miiiiiikið krem á henni og allir voru hæstánægðir. Líka afmælisbarnið. Þeim sem langar í köku er vinsamlegast bent á að heimsækja mig í dag því það kláraðist ekki einu sinni helmingurinn af þessari annars ágætu köku og voru þó átta manns sem brögðuðu á henni í gær. Hún er feit, fitandi og góð. Það var samt eitthvað dularfullt hvað hún var stór, því ég fór alveg eftir uppskriftinni og mamma hefur gert þessa uppskrift áður en samt flæddi hún upp úr venjulegu hræriskálinni (og þá var ekki nema helmingurinn af hráefnunum kominn í!)

Meira hef ég ekki til að deila með ykkur. Jú reyndar. Ég er að fara til Krít 14 júlí. Múhahaha! Á flottasta hótelið á eynni og það þarf bara að labba niður einn stiga til að komast á ströndina. Múhahahahahaaaaaaaa!

Takk fyrir það.

miðvikudagur

Halli á afmæli. Óska honum innilega til hamingju. Meira hef ég ekki að segja.

mánudagur

Bömmer dauðans!

Ég hef komist að því að ég get ekki orðið nunna (sjá gestabók). Ekki miklar líkur á því að ég hefði tollað þar hvort eð er.

Hróaskelda

Jeg viiiiiiillll! En ég fer ekki. Við erum að tala um það að ég er að missa af ööööölllu! Djö... (ég blóta líka of mikið til að verða nunna). Metallica, Coldplay, Queens of the stonage, SigurRós, Iron Maiden, the Cardigans, Björk, Ske o.fl. Hvar var guð þegar ég fæddist???

17. júní er á morgun fyrir þá sem ekki hafa gert sér grein fyrir því.

Takk fyrir það.

föstudagur

Jöminn og jaminn!

Það stefnir allt í það að haldið verði til eyja um verzlunarmannahelgina... Úlala!!!! Og það verða leynilegir gestir með í för... En þeir verða ekki leynilegir öllu lengur því ég ætla að ljóstra upp leyndarmálinu... Það verða Norsarar!!! Já, norsararnir sakna okkar svo helví... mikið að þeir ætla að leggja land undir fót annað sinn og heimsækja okkur og læra fyrir fullt og allt hvernig Íslendingar djamma. Það verður brjálað! Og ef allt gengur eftir förum við svo aftur til þeirra um páskana 2004. Þvílíkt og annað eins. Maður ætti kannski bara að fara í einhvern góðan háskóla í Noregi og bara stofna til góðra kynna við þetta lið. Bara ævivinir. Eina vandamálið er að þeir fara í herinn næsta sumar. Pælið í því! Þeir eru skyldaðir til að fara í herinn! Kreisí Pípúl. Og svo ætlar einn þeirra að verða herflugmaður. Tsssss... Gefum nú bara skít í það.

Það tilkynnist hér með að ég ætla að gerast nunna. Strákar eru óþarfa hlutir og ég nenni ekki að standa í þessu rugli. Væri ekki heimurinn yndislegur ef maður væri bara lessa??? En ég hef nú ekki hlotið það hlutskipti í lífinu, þannig að ég verð bara að sætta mig við nunnuhlutverkið. Það kom líka einu sinni fram á áhugasviðsprófi sem ég tók í 10. bekk að ég væri líklegust til þess að verða nunna eða munkur. Af augljósum ástæðum verð ég líklegast ekki munkur, en nunna skal ég verða!

fimmtudagur

Vá! Ég hef komist að því að það er fullt af fólki sem á sér minna líf en ég. Nú sat ég hér í mestu makindum að skoða bloggsíður annarra og þá lendi ég einn á einni vel gerðri. Ég tók mér smá tíma í að skoða svæðið í góðum fílíng og rakst ég þá á það að maðurinn er búinn að skrifa alla Hitchikers guide to the galaxy bókina inn á bloggið. Pælið í því! Þetta er eitthvað sem ég hef aldrei látið mér detta í hug!

miðvikudagur

Ujjj! Bara komin yfir 700... fer að nálgast þúsundið. Hvað þýðir annars þúsöld?

Ég lofa að fara ekki að fylla síðuna af einhverju svona rugli, en þið verðið að viðurkenna að þetta hérna er nú bara skemmtilegt. En ég er ennþá á móti þessu femínistarugli!
Loving
You're the loving smile,the one that is entirely
devoted to others,especially that one
person.You really can't get them out of your
head,but then,you don't really want to.


What Kind of Smile are You?
brought to you by Quizilla

þriðjudagur

Hvur andskotinn???


You are the typical feminist, depressed, artist.
You go against the crowd and do everything you
can to be different. Too bad noone notices.
Try communicating with people, not just looking
down on them.


What kind of typical high school character from a movie are you?
brought to you by Quizilla

Í fyrsta lagi er ég ekki femínisti. Eða djöfull vona ég ekki. Ég geri kannski ekki allt til að vera öðruvísi en mér finnst það gaman og ég á fullt af samskiptum við fólk! Ég á fullt af vinum. Ég er ekki sátt við þetta!
Það er sorglegt hvað ég er fædd á vitlausu tónlistartímabili!

mánudagur

Svefn mikill og góður

Í nótt svaf ég í svona sirka 15 tíma. Mig dreymdi ekkert ljótt sem verður að teljast nokkuð gott þar sem ég sá tvö Keflvísk typpi með mínútu millibili í fyrradag og þess vegna vís með að fá slæma martröð. En ég sofnaði og svaf betur en ég hef gert í marga daga, ef ekki vikur. Líklega væri ég ennþá sofandi ef ég hefði ekki verið vakin. Einhver lógík í þessu.

Það þarf að verða hægt að hringja í...

...lyklana, veskin, peningana, og allt þetta smáa sem maður tekur með sér í útilegur og á djammið. Maður týnir því alltaf. Ég veit ekki hversu oft um helgina var hringt í einhvern síma bara því eigandinn nennti ekki að velta nokkrum púðum og svefnpokum til að finna hann. Og ég veit ekki hversu oft var kvartað undan því að ekki væri hægt að hringja í lyklana og veskin.

Það jaðrar við...

fullnægingu að hlusta á Kurt Cobain syngja My girl á Unplugged disknum. Ég mundi allt í einu eftir því um daginn að ég ætti þennan disk og setti hann í tækið og ég var sko með gæsahúð uppúr og niðrúr allan tímann.

Takk fyrir það.

sunnudagur

Kornið sem fyllti mælinn!

Ég var að koma úr útilegu þar sem haldið var að Laugavatni. Eins og flestir sem hafa eitthvað tekið þátt í körfubolta vita að á milli liða suðurnesjanna og annarra liða, þá sérstaklega Breiðabliks og Njarðvíkur og Keflavíkur. Ég persónulega hef ekki góða reynslu af þessu fólki (bara eina góða) og í gær sannaði þetta fólk algjörlega fyrir mér að það er ömurlegt! Á Laugavatni var allt fullt af Keflvíkingum sem pissuðu á mann, rúnkuðu sér og puttuðu sig í rassgatið fyrir framan alla og settu kjöt á hausinn á sér! Ég meina, hvað er vandamálið??? Sorglegt.

föstudagur

Hvað ég verð þegar ég verð stór...

Ég er búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór (vonum samt að ég verði ekki mikið stærri en ég er núna!). Ég held ég ætli að verða leikari. Ég var að koma af leiksýningunni Rómeó & Júlíu (í annað skiptið btw) og ég verð að viðurkenna að þetta heillar mig allt voða mikið. Ég fór svo á bakvið eftir á (þar sem Rómeó eða Gísli er frændi minn) og þá varð ég nú bara veik! Ég er nokkurn vegin ákveðin. Samt ekki alveg. En við sjáum til. Ég hef samt spáð í þetta og ég veit alveg að sama hvað ég verð í framtíðinni, þá verð ég eitthvað sem tengist listum. Hvaða listum sem er. Ég gæti til dæmis hugsað mér að verða; rithöfundur, leikari, listamaður/listmálari (þ.e.a.s. ef ég kynni að teikna beina línu), fiðluleikari, bara whatever sem tengist þessu. En spurningin er eignlega bara hvað... hmmm...

Það er búið að banna mér aðgang að ákveðnu húsi hér í bæ þar sem geisladiskar eiga það til að týnast hjá mér. Mér er svo sem alveg sama með þetta bann þar sem ég hef aldrei og mun líklega aldrei stíga fæti inn í það, en er það ekki full gróft að bara banna mér að koma þar inn? Ég læt ekki diskana hverfa. Mér þykir óskaplega vænt um þá geisladiska sem ég á og reyni eins og ég get að passa þá, en ég er bara svo annars hugar alltaf sjáið til. Ég er samt ekki enn búin að finna Saybia diskinn. Ég er eiginlega búin að komast að því að einhver hefur tekið hann. Ég bý ekki í það stóru húsi að geisladiskur geti bara horfið hérna.

Annars bið ég ykkur vel að lifa. Takk takk.

fimmtudagur

Henni er lokið... loksins!

Ég var að klára bókina og ég er orðlaus. Ég skil ekki að nokkur maður geti gengið í gegnum ævi eins og Kurt gerði. Enda drap hann sig á endanum, en samt. Maður hlýtur að spyrja sig hvort þetta sé allt sannleikur sem er sagt frá, því sumt er svo ótrúlegt að það nær engri átt. En það er nú oft sagt að sannleikurinn sé ótrúlegri en skáldskapurinn. Þess vegna setja nú rithöfundar oft atvik sem hafa í alvöru átt sér stað í sögur sínar, breyta bara stað, stund og nöfnum. Það er mjög sniðugt.
Ég fór áðan og ætlaði að fá bókina Býr Íslendingur hér? að láni á bókasafninu og hringdi meira að segja á undan mér til þess að vera viss um að hún væri til. Þegar ég mætti á svæðið var hún víst ekki til nema sem hljóðbók. Ég hef aldrei prufað að hlusta á hljóðbók, en ég ákvað bara að prufa þetta. Vonum bara að það sé ekki einhver leiðinleg manneskja að lesa.

Ég mun flýja amstur stórborgarinnar um helgina og leggja land undir fót í fyrstu útilegu sumarsins. Ég hlakka ólýsanlega mikið til, enda eitt það skemmtilegasta sem ég geri að sofa í tjaldi og þurfa að sækja vatn á hverjum morgni! Æði!

Bið ég ykkur vel að lifa þangað til næst.

þriðjudagur

Longing for Spain...

Já. Ég var rétt í þessu að ljúka msn samtali við góðan vin minn frá Spáni. Hef ekki talað við hann í marga mánuði (vegna bilunar í tölvunni hans) og ég var að komast að því að ég sakna hans, og allra sem voru með mér úti, alveg rosalega mikið! Þetta var æðislegur tími sem varla er hægt að lýsa með orðum. Ef ég gæti fengið að upplifa einn mánuð í lífi mínu aftur, þá yrði það deffinetí þessi mánuður sem ég var úti. Vá, hvað mig langar aftur út!

Saybia diskurinn minn er ennþá ófundinn. Ég er í hjartasárum. Og fyrst umræðan er um týnda diska þá er In Utero diskurinn minn líka horfinn og Nirvana safndiskurinn minn. Þetta er óþolandi! Það er huldukona í húsinu mínu sem tekur hluti (og þá sérstaklega lykla og geisladiska) mjög reglulega frá mér og felur þá. Ég vil mótmæla þessu.

Hún á AMMLI!

Hún Katrín frænka mín á afmæli í dag! Hún er orðin 18 ára gömul... algjör elliær (miðað við mig) og vil ég óska henni innilega til hamingju með daginn. Ég eyddi reyndar mest öllum deginum með henni! Við byrjuðum á því að fara í Kringluna og vandra þar um í nokkra tíma og eyða peningum. Svo var farið heim, skipt um föt og hresst upp á útlitið og farið út að borða með henni, kærastanum og vinkonu. Við fórum á Ruby Tuesday og vil ég hrósa matseldinni. Þarna fæ ég næstbestu svínarif í heimi! Þau bestu eru á Tony Roma´s. Kannski maður fari bara út í veitingahúsarekstur og opni einn þannig hérna á Íslandi. Þá yrðu allir ánægðir.

Takk fyrir það

mánudagur

Ég hef verið bölvuð með versta erfðagalla í geimi. Feimni. Ég er svo feimin að það háir mér. En samt hef ég hitt feimnara fólk en mig, en ég er samt of feimin. Og það pirrar mig. Ég vil geta tekið málin í mínar hendur, en ég get það bara ekki. Sorglegt.

Alexandertækni

Áðan var ég 'sjálfboðaliði' á námskeiði í Alexandertækni í tónlistarskólanum. Tæknin kennir manni sem sagt það að beyta manni rétt þegar maður spilar á hljóðfæri. Ég var svo heppin að finna það sem líklega veldur vöðvabólgunni minni. Æðislegt! Þetta var samt heldur skrtítið, kallin (sem var svartur frá toppi til táar, meira segja með svart litað hár) stóð fyrir aftan mig á meðan ég spilaði og snerti mig hátt og lágt. Samt ekkert perralega. Þetta var eiginlega svolítið fyndið. En hann gerði kraftaverk! Vakti athygli mína á því að ég þarf að standa gleiðari og að ég ætti að halla mér afturábak ekki áfram.

Ég leita enn lækninga við feimninni (svarti kallinn átti ekki ráð við henni) og ég lýsi eftir sjálfboðaliða.

Tapað/fundið

Ég lýsi líka eftir einhverjum sem getur gefið mér upplýsingar um ferðir Saybia disksins míns. Hann er gulur og það stendur Saybia framan á honum og hann er ekki í hulstri. Síðast sást til hans á fimmtudaginn. Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir hans vinsamlegast snúið ykkur að gestabókinni minni eða hringið bara í mig!

Takk, takk

laugardagur

VÁ MAR!

Var á Sól og Mána og þetta er geggjuð sýning! Í lokin var ég komin með tárin í augun og ég var með gæsahúð svona mest allan tímann. Það fer nú varla fram hjá neinum að Sálin hans Jóns míns eru bara hreinir snillingar og þeir eiga skilið stórt hrós fyrir framlag sitt til íslensku tónlistarflórunnar. Það eina sem skyggði á fyrripart sýningarinnar voru endurtekin hóstaköst sem ég fékk. Ég er með norskt kvef. Það er algjör djöfull! Mjög leiðinlegt. Kona sem sat fyrir framan mig hvarf eftir hlé með alla sína familíu sem voru ein fimm, sex sæti, og vil ég meina að það hafi verið hóstakastinu mínu að kenna. Ég skil ekki alveg hvað fólki gengur til með að vera með svona stæla! Ég meina, kommon, ég er með hósta, hvað á ég að gera í því??? Ég fékk mér hóstasaft og var með ópal (sem virkaði reyndar ekki sem skildi) og ég reyndi hvað ég gat til að kæfa þetta! En mér er svo sem alveg sama. Hún missti af flottasta atriðinu í allri sýningunni, þar sem gaurinn sem leikur bróðir Baltasar Kormáks í Djöflaeyjunni fer á kostum og sannaði fyrir mér í eitt skipti fyrir öll að hann er einn besti leikari okkar íslendinga. Nú jæja, ég ætlaði að reyna að hemja mig og skrifa ekki mikið í hver skipti þannig að ég kveð bara núna.

Góða nótt!

fimmtudagur

Þar sem tekið var af mér loforð í fyrrdag um að ég bloggi á hverjum degi tel ég réttast að standa við það.

Ég er ofsótt í draumum!

Í nót svaf ég sama og ekki neitt og mig dreymdi alveg skrýtnasta draum sem ég man eftir að hafa dreymt. Ég var bara á röltinu með einhverjum tveimur gaurum. Annar var svolítið þybbinn en hinn var mjór og ljóshærður... reyndar alveg eins og Kurt Cobain...! Ég vissi að þessi bók myndi hafa alvarleg áhrif á mig. Ég bara vissi það! En annars verður plakatið mitt hengt upp á vegg í dag. Mér finnst það svo flott að það er alveg að fara með mig bara!

Hann á afmæli...

hann pabbi... Hann á afmæli í dag. Og það verður engin svakaleg veisla en ég ætla að nýta tækifærið og óska honum innilega til hamingju með daginn.

Takk fyrir það!

miðvikudagur

Ég held ég sé búin að sofa of mikið í þessu blessaða sumarfríi. Allavega er hausinn minn að mótmæla harðlega þessa stundina.

Ég hef komist að því að það er alveg nákvæmlega sama hvar þú þrífur í húsinu, það er leiðinlegast að gera það inni í þínu eigin herbergi. Mér finnst það hundleiðinlegt og sem dæmi má nefna að ferðataskan mín er ennþá á gólfinu eftir að ég kom heim frá Noregi sem var núna fyrir rétt tæpri viku. Ég hef allan þann tíma sem þarf, en einhvern veginn er bara miklu skemmtilegra að lesa og gera eitthvað annað sniðugt. Annars leiðist mér alveg hrikalega þar sem allir sem ég þekki eru að vinna og ekki ég og ég lýsi hér eftir "leikfélaga" sem hefur ekkert betra við tímann sinn að gera í sumar en að hanga með mér.

Annars er ég hálfnuð með Heavier than Heaven og Kurt er orðinn 24. Ég held ég hafi aldrei lesið jafn ágæta bók og það getur vel farið svo að ég kaupi mér hana bara og lesi hana aftur einhvern tíman. En eigum við ekki bara að láta duga að komast einu sinni í gegnum hana... hmm...

Veðrið úti er æsilegt og ég þarf að baka fyrir afmæli gamla mannsins á heimilinu sem verður á morgun þannig að ég kveð ykkur með þessum orðum.

þriðjudagur

Fólk er farið að kvarta undan því að ég bloggi ekki nógu mikið. Mikið er það gaman! Ég veit það þó að ég á hér trausta lesendur. Takk fyrir það!

Sumarfríið

er nú ekki búið að vera upp á marga fiska síðan ég kom heim frá Noregi. Ég er meira kannski eins og svona búin að sitja heima, lesa, lesa meira, hlusta á tónlist, horfa á sjónvarpið (þá hefur Wayne´s World iðulega orðið fyrir valinu) og svo mætti ég reyndar á eina hljómsveitaræfingu í gær. Já, það var nú meira vesenið! Ég var búin að ákveða að fara í bíó með ágætis vinkonu minni, en nei, þá var ég vinsamlega minnt á að ég átti að mæta á einhverja bölvaða æfingu inni í Hafnarfirði. Þess má til gamans geta að ég leggst í þunglyndi í hvert skipti sem ég uppgötva að það sé hljómsveitaræfing. Svo ég mætti á æfingu og var mér tjáð það að ég ætti að bera út einhver 1000 blöð um Hafnfirska listahátíð sem verður 1. júní. Ekki það að ég hafi eitthvað betra að gera. Ég hef nákvæmlega ekkert að gera. Vinnan mín krefst þess að ég æfi mig á fiðluna hérna heima eða í tónlistarskólanum og ég get ekki sagt að álagið sé að gera út af við mig eða eitthvað. Annars komst ég að því að skrifa svona 10 blaðsíðna ritgerð í hvert sinn sem ég blogga og ég get ekki ímyndað mér að nokkur manneskja nenni að lesa þetta allt þannig að ég ætla bara aðeins að slaka á munnræpunni... eða skrifræpunni.

Þannig að ég segi bara bless og takk í dag (Ég vona að þetta svali lestraræði þínu Sigrún mín ;)

föstudagur

Haha!

Komin heim í heiðardalinn! Ég er dauðþreytt eftir æsiskemmtilega ferð, mikið djamm og mikið gaman. Ég tók tæplega 300 myndir í ferðinni og ætlar góðvinur minn hann Tommi að reyna að hjálpa mér að finna aðferð við að setja mynirnar hér inn svona ykkur til skemmtunar og yndisauka.

Annars grét himinn og jörð þegar við íslendingar yfirgáfum svæðið með miklum sudda og viðbjóði, en Ísland fagnaði með fallegu veðri og steikjandi hita (á íslenskan mælikvarða).

Hvað með íslensku stelpurnar?

Í Noregi breyðast sögur mjööög fljótt út, sérstaklega þegar maður er í svona litlum bæ eins og Gjovik, einungis 200.000 manns eða svo. Þar voru bara allir búnir að ákveða það að íslenskar stelpur væru druslur og það var svolítið fyndið að sjá að um leið og strákarnir föttuðu að maður var að tala íslensku, þá voru þeir bara nánast komnir ofan í kok á manni... eða svo að segja. Annars voru þeir nú allir hálf sorglegir og gátu ekkert gert eða sagt nema eftir svona um það bil 5 bjóra en þá voru þeir samt farnir að sveifla ímynduðum typpum yfir axlirnar og láta öllum illum látum! Í nótt var svo partý til klukkan 7 í morgun og allir norsararnir hressir og kátir klukkan 8 í skólann. Ég fór samt heim þar sem ég var engan veginn að skemmta mér í kringum sumt af þessu fólki. Það er erfitt að höndla 17 og 18 ára fólk sem er enn rétt að byrja á gelgjunni. Þvílík dramatík og Guiding Light að það gæti alveg farið með mann. Annars var svolítið gaman að kynnast Norskum drykkjuhefðum og djammi. Ég fór þarna inn á skemmtilegasta bar sem ég hef farið inn á. Þetta var svona lítill myrkur staður, með svona bása út um allt þar sem fólk sat og svo var bara lítið svið þar sem mikil tilraunastarfsemi fór fram. Þar voru bara krakkar á aldur við mig að spila frumsamin lög, allt svona í þessum rokk dúr sko, og ég var að fíla mig í tætlur! Algjört æði. Svo komst ég hálfa leiðina á hann aftur í gær en hópurinn splundraðist og ég fékk mér bara að borða og fór svo heim. Annars er drulludýrt að lifa í noregi, bjórinn á 160 kall norskar kippan (norksa krónan er 10,9 ISK), píkubjórinn svokallaði miklu ódýrari og eftirdjammmatur yfirleitt ekki minna en 800 kall, alveg sama hvað maður reyndi. En þetta var gaman og hamingja verður ekki keypt með peningum, þannig að núna er ég bara fátæk en ánægt lítil hnáta í sumarfríi. Og á sumrin gerast hlutirnir, þið vitið það! Ég er alls ekki komin langt með Heavier than heaven enda les maður lítið í bók þegar maður kemur heim klukkan 3 á nóttunni eftir mikið klifur og púl í brekku sem liggur upp að norska heimili mínu (það er búið að bjóða mér gistingu þar aftur ef ske kynni að ég leggi leið mína aftur til norge!). En í flugvélinni í dag tókst mér að klóra mig í gegnum allavega 10 blaðsíður í einum teig og leið mér bara nokkuð vel eftir á.

Kaizers Orchestra

er eitt heitast bandið í Noregi í dag. Ég keypti mér diskinn. Þeir sem ég þekki og eru forvitnir endilega komið til mín og hlustið. Þetta er gaman. Samt mjög svona sérstakt, orgelspil, harmónikkuspil, tunnuspil, allskonarspil bara. Mjög skemmtilegt, og allt sungið á norsku!

En þar sem sumar og sól ríkir nú á landi ísa hef ég ákveðið að skjóta mér út og láta sólina baka andlit mitt í svona smá stund áður en ég fæ mér íslenska pitsu í kveldmat.

Takk fyrir það

sunnudagur

Tusynfrid

Eg var ad koma ur skemmtigardi sem heitir Tusynfrid... eg er ekki viss um ad tetta se rett skrifad hja mer. Tad var alveg rosalega gaman og fullt um ad vera. Eg for i svona svipad og gullna turninn i tivoliinu i kaupmannahofn, nema tad dettur ekki nidur heldur skyst upp! Tad var buid ad hræda mig alveg svakalega med brjaludum søgum a medan eg beid i rødinni og hjartad var nu tegar komid i buxurnar adur en mer var skotid upp! Tad var hrædilegt! En mjog gaman eftir a natturlega :D

Ljosmyndari framtidarinnar

Eg er buin ad taka 120 myndir herna!!!! Alveg brjalud a nyju stafrænu velinni og allir voda sætir ad sitja fyrir a tessum myndum. Eg ætla ad reyna ad finna leid til ad setja eitthvad af teim herna inn an tess ad turfa ad borga fyrir tad.

Dimmitering nordmanna

stendur ekki yfir i einn dag heldur 17 daga!!! Tad fer tannig fram ad teir sem eru ad utskrifast eru i smekkbuxum sem buid er ad skrifa fullt a og prenta nafnid teirra og svona og buxurnar eru i lit teirrar brautar sem krakkarnir eru a. Nu flestir eru annad hvort svartir eda raudir og er mikill rigur a milli tessara hopa. Og svo eru tessir krakkar ad runta um bæjinn og mala hann raudann i bokstaflegri merkingu. Tau eiga serstaka bila sem ganga a milli kynsloda og er buid ad innretta og eru bara maladir upp a nytt a hverju ari. Tau mala arodur og nofnin sin og you name it bara a ruturnar. Svo eiga tau svona hufur og tau fa einhvern hnut i hufurnar fyrir hvern skandal sem tau gera, sem er til dæmis ad hlaupa um alsber o.s.frv. Svo eru tau alltaf med vatnsbyssur og mikil stemning i tessu. Mikid væri eg til i ad gera tetta mar! Gedveik stemning ørugglega.

En eg held eg snui mer aftur ad Heavier than heaven... Geggjudustu bok sem eg hef lesid lengi (takk innilega enn og aftur Raggi fyrir ad lana mer hana :o)

Hey då!!!
(eg veit tetta er sænska en tetta segja tau krakkarnir :)

miðvikudagur

buin ad vera i norge i nokkra tima og tad er geggjad!!!

Hallo...

eg er i norge... tad er ekki hægt ad gera sersislenska stafi nema æ.... tanni ad tid verdid ad tola tetta..

P.S. Raggi... Eg bid ad heilsa ter... sakna tess ad tala vid tig a msn! :)

Cya l8ter!!!

laugardagur

Tónleikabrjáluð

fjölskylda sem ég er í! Á fimmtudaginn söng mútta mín á tónleikum, í gær spilaði ég, í dag spilaði systir mín á tónleikum og á morgun spila ég á tónleikum og mamma syngur á öðrum, og ekki nóg með það, heldur spila ég á öðrum tónleikum á þriðjudaginn! Já, það er óhætt að segja það að við séum múzíkölsk. Ég fór sem sagt og horfði á systir mína spila kópavogur hopp stopp (gulur rauður...) og fyrir framan mig var nú bara mestasta krútt sem ég hef séð! Þetta var svona ca. árs gamall strákur fyrir framan mig, með ekkert hár á hausnum, eiginlega engar tennur og útstæð eyru... svo var hann með mjög skásett augu. Hann minnti mig nú svolítið á hárlausan hobbita. Eða eitthvað. Hann var nú meira krúttið.

Kosningar

eru í dag og nú flykkjast allir íslendingar á kjörstaði. Ég er nú búin að velta því soldið fyrir mér hver verði næsti forsætisráðherra og hvern ég mundi vilja. Ég veit ekki, en þar sem ég má ekki kjósa (bendi samt á það að ef ég væri með hærri laun þá þyrfti ég að borga skatta!) þá skiptir það nú að vísu ekki miklu máli hvað mér finnst. Ég held ég latið bara þar við sitja, þar sem ég hef lítið sem ekkert vit á þessum málum.

Kjósið vel og kjósið rétt!

P.s. var ég búin að minnast á það að ég er komin í sumarfrí!!! C",)

föstudagur

Músin snýr aftur... og nú í sumarfríi!

Já gott fólk, ég er komin í sumarfrí. Enginn meiri skóli í ca. þrjá mánuði! Ég fagnaði þessu rækilega með því að leggjast upp í sófa um leið og ég kom heim og horfa á Beautiful mind, en hana var ég að sjá í fyrsta skipti. Ég get alveg mælt með henni. Það var heldur ekki laust við að það kæmu nokkur tár á köflum! En svo þegar myndin var búin hélt ég að ég væri orðin eitthvað veik á geði. Það fyrsta sem mér datt í hug að gera var að fara að lesa! Við erum að tala um það að ég sé búin að lesa í heila viku samfleitt, ég hef örugglega lesið eitthvað í svefni líka, og þegar síðasta prófið er búið langar minni bara að fara að lesa!!! Þetta er ekki heilbrigt. En allavega, þá gat ég ekki svalað lestrarþorsta mínum sökum þess að ég er búin að lesa allar bækur á heimilinu. En það lagast vonandi bráðum því að Raggi var búinn að lofa því að lána mér Heavier than heaven, ævisögu Kurt Cobain, og bíð ég nú spent! Hey, já.... hann lenti einmitt fyrir ca. hálftíma ef að áætlun hefur staðist. Það er eins gott að hann muni eftir því að lána mér bókina (þetta er svona vinsamleg áminning Raggi).

Noregur
er á næsta leiti... leyti... ég man aldrei hvort það er! En allavega, þá eru ekki nema fjórir dagar þangaði til ég fer ef ég tel ekki daginn í dag með. Það er gaman. Ég fékk samt vægt svona menningarsjokk í gær þegar mér var sagt að ég þyrfti að taka með mér fín föt (sko alveg spari spari) til að vera í á þjóðhátíðardeginum, 17. maí. Það veit enginn hvað 'fínt' þýðir á þeirra mælikvarða og ætli það endi ekki bara með því að maður dragi fram fermingarkjólinn! Nei, það væri nú kannski fullmikið. Hann er ekki einu sinni fínn! En okkur er nú enn stærri vandi á höndum. Sökum misskilnings milli Lenu vinkonu minnar og Marthine, einnar ágætrar norskrar stúlku, þá hefur Kristrún, ein af mínum betri vinkonum, verið sett í gistingu á einhverju afskekktu bóndabýli í hálfs klukkutíma fjarlægð (ætli það sé á bíl, traktor eða í hestakerru?) hjá strák sem fór ekkert lítið í taugarnar á okkur þegar þau voru hérna. Greyið strákurinn er bara bóndi! Og hún er svona að hóta okkur því að hætta við að fara ef að Lena kippir þessu ekki í liðinn strax! og hananú! Þetta yrði svolítið skelfilegt ef hún ætti að gista þarna.... þá neiddumst við til að vera mikið með grey stráknum. Ekki misskilja mig, ég er ekki svona vond við alla sem mér er illa við (reyndar finnst mér svolítið leiðinlegt að vera að baktala hann svona) en þessi maður er bara algjörlega óþolandi!

En annars, bara góða helgi og við heyrumst...

þriðjudagur

Hvursu ósangjörn verður veröldin?!?!
Ég þrælaði mér út um helgina, lærði og lærði, glósaði meira en 10 blaðsíður í spænsku og las þær yfir aftur, las alla textana og lærði fullt af orðum utanað. Hlustaði á í öllum tímum og glósaði eins og brjáluð hæna og lærði fyrir alla tíma. Ég fell mjög líklega í spænsku.
Ég opnaði varla bók fyrir náttúrufræðiprófið mitt, ég hef aldrei lært heima í vetur og hlusta aldrei á í tímum. Við erum að tala um meðaleinkun sem nær hátt upp í níu. Mér finnst þetta ósanngjarnt og það er stórt grátt ský yfir höfðinu á mér núna. Ég er brjál! Þannig að forðist mig eins lengi og hægt er, allavega þangað til á morgun.

p.s. Ég veit ég sagðist ekki ætla að skrifa í þessari viku en ég bara varð að deila þessu með ykkur. Maður verður að tala út um hlutina ekki satt???
500!!!

Já, lesandi góður. Nú hafa 500 gestir heimsótt síðuna mína. Það þykir mér gaman. Ég veit hver var númer 500 og klappa ég honum lof í lófa fyrir framúrskarandi árangur. En mér finnst samt soldið spúkí að sami maður var númer 100... og mig minnir að hann hafi líka verið númer 50. En það getur líka verið bull. En þetta er allt voða skemmtilegt, góður fílingur og sumarið að koma. Við erum að tala um það að prófin byrji á mánudaginn og verði búin eftir eina og hálfa viku (9. maí) og eftir tvær vikur mun ég hverfa til Noregs í 10 daga og sitja þar í rútu og skoða ýmsa merka staði Noregs og þess á milli gera eitthvað skemmtilegt í góðum félagsskap. Þegar ég kem heim er komið sumarfrí! Það er bara kúl, þegar við skoðum þá staðreynd að fólk sem er annað hvort í skóla í Noregi eða í grunnskóla eru ekki búin fyrr en 20 júní! Múhaha!

X... hvað???

Í dag var gaman í skólanum. Þannig er nú mál með vexti að á morgun verður kosið í allar nefndir og ráð í skólanum og það var kosningabarátta í orðsins fyllstu í dag. þarna var á boðstólnum brauðstangir, nammi, kex, meira nammi, snakk, varasalvar ("verið með Ingvar á vörunum..." mjög sniðugt), Harry Potter dót, kökur, auglýsingar, áróður, meiri kökur, djús, pepsi, pepsi max, appelsín, meiri áróður, meira nammi, áhorf á Friends í einu horninu í boði Jóa Guð, sleikjóar með áheftuðum áróðri, mjólk (já, mjólk) og meira snakk svo fátt eitt sé nefnt. Svo var uppskeruhátíð krakkanna í fatahönnunaráföngum og var haldið upp á hana með einstaklega vel heppnaðri tískusýningu. Strax eftir það var svo meiri áróður, en þá héldu frambjóðendur ræður. Voru þær misjafnlega vel fluttar, skrifaðar, æfðar og svo framvegis. Sumir gengu jafnvel svo langt að flytja ræðurnar á þýsku og frönsku. Elli forseti var nú ekki ánægður með frönskumælandi frambjóðandann þar sem hann sóttist eftir krúnunni hans Ella. En þetta var fyndið og skemmtilegt og ég losnaði við að fara í hálfan sögutíma (sem ég btw þarf ekkert að mæta í því það er upprifjun og ég tek ekki prófið!!!). Svo fór ég í Spænsku og kallin lét okkur horfa á eina skemmtilegustu mynd sem framleidd hefur verið; Hable con ella, eða Talið þér við hana (við mundum nú samt segja talaðu við hana en þetta er þérun og algjör regla í spænsku). Samt tekur ekkert skemmtilegt við hérna heima. Nú þarf ég að fara að glósa gylfaginningu.

Ég bið ykkur þá bara að lifa heil.

laugardagur

Er hægt að eyða laugardagskveldi betur en í það að vinna fyrirlestur um nauðganir? Það held ég. Sérstaklega þar sem fyrstu áform um eyðslu þessa kvölds voru björdrykkja og læti. En það varð lítið úr því og verð ég því að bíða þolinmóð til næsta miðvikudags, þar sem liðið ætlar að draga mig á Skítamóralsball. Engan veginn líst mér nú á það, en ölið verður til staðar og er það vel. O vher veit nema maður finni sér einhvern gæja? Neih, segi nú bara svona... sénsinn.

Gítar, spítar

Hér hefur veirð spilað á kassa þann er gítar er nefndur látlaust í nokkra daga. Nú er svo komið að ég er alvarlega að spá í að fara í hálft gítarnám með fiðlunáminu. Svo var ég að ræða við ágætan kunningja um daginn og hann sagði mér að það væru allir að eignast gítara! Vinkona viðkomandi og vinur fengu gítar í fermingargjöf og hann hafði heyrt um fleiri! Mér finnst það fúlt. Ég vil ekkert að allir kunni að spila á gítar! Þá er ekkert gaman. Það væri svona eins og ef allir kynnu að spila á fiðlu. Þá væri heimurinn nú skrítinn. En það er gaman að spila og syngja saman og hérna rétt í þessu var ég að glamra mig í gegnum Space Oddity með David Bowie í aðalhlutverki. Gott lag, sérstaklega þegar maður er í góðra vina hópi að djamma.

Nú nálgast prófin óðfluga og þú, lesandi góður, ættir að njóta þess að lesa allt sem ég skrifa í þessari viku því í þeirri næstu mun ég eigi blogga. Ég veit, þetta er hræðilegt, en leitið stuðnings til ættingja og vina ef þetta verður orðið of erfitt fyrir ykkur. Ég mæli sérstaklega með því svona í vikulok. En sjá, ég mun aftur hverfa þann 9. maí, þannig að þetta eru nú ekki nema nokkrir dagar.

Með von um góðan skilning,
Músin

föstudagur

Dimitering, Dimisjón, Dimendur


Í dag var dimitering í skólanum. Mér finnst það alltaf jafn gaman og líka alltaf jafn leiðinlegt (ókey, þetta var í annað skiptið sem ég verð vitni að slíku en samt). Ég veit að ég á eftir að sakna þeirra allra. Skólinn verður ekki samur án þeirra. Reyndar þekki ég næstum engan persónulega, en ég hef djammað með slatta af þessu liði (sko, með þeim, hangið með þeim), og það er meira en margir geta sagt. Nú kemur nýr forseti þannig að viðurnefnið sem Elli forseti hefur haft á sér í þó nokkurn tíma verður ekki hans lengur. Hvernig hljómar... Ella forseti? Væri það ekki bara soldið kúl? En engar áhyggjur, ég er langt frá því að fara að bjóða mig fram í eitthvert forsetaembætti. En Ég íhugaði það að bjóða mig fram í einhverja nefnd. En þar sem ég hef ekki staðið mig sem skyldi í skólanum þessa önnina þá datt mér svona í hug að ég ætti kannski að nýta tímann í eitthvað annað en að skipuleggja skemmtun fyrir aðra. Eða hvað svo sem það yrði.

Munnlegt próf...
fór ekki sem skyldi í dag. Ég féll kylliflöt, með einkunnina 5,75. Ég væri nú ekki að flagga þessari einkunn hérna ef ég hefði ekki góða og gilda ástæðu fyrir henni. Það er kannski hægt að deila um það hvort að það sé hægt að taka hana gilda en mér finnst það. Hún er sú að ég þrátt fyrir mikinn lærdóm, mikla streitu og mikinn spænskan upplestur undanfarna daga (og þá sérstaklega í páskafríinu) gekk mér hræðilega um leið og ég kom inn. Ég bara fraus og allt fór í einn hrærigraut í hausnum. Ég sver að ég var farin að sjá fyrir mér stafasúpu! Ég held að það sé hann Chinotti sem gerir mig svona taugaóstyrka. Hann gerir það nefnilega. Hann gerir mig svo taugaóstyrka að það nær engri átt. Hann spurði mig út í sögn sem ég las svona u.þ.b. 2 mínútum áður en ég fór inn í stofuna. Ég lærði hana líka fyrstu vikuna í skólanum úti á spáni og ég kann hana mjög vel. Ég get þulið hana upp núna með léttum leik. En í dag, ónei! Ég mundi ekki einu sinni hvað bölvaða sögnin þýddi á íslensku! Þetta er ekki hægt og ég má teljast heppin ef ég næ þessum áfanga. Ég vona að ég geri það því ef ég verð svo heppin að ná, þá fer ég til Spánar líkleg á afmælisdeginum mínum. Súperb! Fyrir utan það að ég á að fá bílpróf þann dag, en ég hlýt að geta lifað af eina viku. Fæ það svo bara um leið og ég kem heim aftur!

Takk fyrir.

fimmtudagur

Já, og gleðilegt sumar.
Skref 1. Stinga hendinni ofan í plastpoka.
Skref 2. Taka kúkinn upp með hendinni og snúa plastpokanum við þannig að kúkurinn er nú inni í plastpokanum.
Skref 3. Henda pokanum í næstu ruslatunnu.

Ég vona að ég hafi komið þessu skýrt frá mér. Dísus!

miðvikudagur

Búhúúúúú...
Ég vil ekki vera í skólanum!

Sumardagurinn fyrsti er á morgun og þá er frí. Gefum því eitt gott klapp. Mér leiðist og ég hef óhemju mikla þörf fyrir að tjá mig. Ætti ég að gera svona tilraun og standa uppi á borði í tölvustofunni og öskra þessa klassísku setningu, "I´m the king of the woooooorld!" Það myndi samt örugglega ekki falla í góðan farveg hjá henni Önnu Jeeves enskukennaranum mínum. Henni er eitthvað illa við mig. Ég veit ekki enn hvað það er sem ég hef gert henni, en eitthvað er það, því ef allir eru að tala þá öskrar hún yfir bekkinn "Elín!" og þaggar niðrí mér, svo heldur hún áfram með kennsluna þó að allir aðrir séu að tala. Mjög skrítið, einkar furðulegt. En núna erum við í tölvutíma í ensku og höfum fengið leyfi til að tala og ég er engan veginn að nýta mér það, ég sit bara og tala við sjálfa mig með því að skrifa á bloggsíðu. Einkar furðulegt.

Ég er stórhneyksluð! Maður hverfur frá skóla yfir páksa, í eina og hálfa viku, og þegar maður kemur til baka eru allir strákarnir sem áður voru með sítt hár búnir að raka það af! Hvað það er sem fær fólk til að gera slíka firru er mér óskiljanlegt. Algjörlega.

þriðjudagur

einhver sprelligosi setti klám inn á gestabókina mína. Mjög fyndin, haha. Ég hló mig dauða. Eeeennnn ég náði að taka það út svo enginn skaði skeður.

Páskarnir

sem voru bara alls ekki svo slæmir eru nú senn á enda og alvara lífsins, skólinn, tekur við. Ég vil vekja athygli á því að eftir átta mánuði verð ég hálfnuð með framhaldsskóla! Hvað tekur við eftir skóla hef ég ekki hugmynd um. Ég hef verið að velta því fyrir mér að mastera spænskuna og fara jafnvel í einhvern listaháskóla þar. Hver veit. Reyndar er rosalega erfitt að ákveða eitthvað svona fyrirfram. Ég meina, hver veit nema ég verði heppin og eignist einhverntíman kærasta, þá er nú ekki nokkur leið að draga hann bara með til spánar! Nægur tími samt, enginn asi.

Ég verð að slá botninn í þetta með einni lítilli yfirlýsingu. Ég er fædd á vitlausu tónlistartímabili!!!

föstudagur

Hitanum hefur verið skipt út fyrir kvef. Ég vildi heldur vera með hita. Þá hefur maður að minnsta kosti löglega afsökun fyrir því að liggja uppi í rúmi og gera alveg ekki nokkurn skapaðan hlut.

Langt...
En samt ekki. Jú, það er föstudagurinn langi. Mér leiðist og mamma er hrædd við að hreyfa sig því hún á von á því að tengdamóðir hennar mæti upp og skammist. Ég veit ekki um neinn sem tekur föstudaginn langa eins hátíðlega og hún amma mín blessunin.

Mínir ökuhæfileikar, já...

Í gær afrekaði ég það að keyra úr garðabænum og upp á höfða. Á leiðinni tókst mér að panikka allhressilega þegar löggimann byrjaði að aka á eftir mér. Ég veit ekki af hverju. Ég var á tótalí löglegum hraða, með öll ljós kveikt, gaf stefnuljós í allar áttir eins og allir bavíanar gera um leið og þeir sjá löggun og stoppaði 5 metrum fyrir aftan stöðvunarlínu. Nokkuð gott. Svo komst ég að því að þetta var svo ekkert samsæri gegn mér, löggan var alls ekki á eftir mér, heldur beygði bara í burtu frá mér. Mér varð svo mikið um að ég drap á bílnum þegar það kom grænt og gat ekki sett hann í gang aftur fyrr en rauða var komið aftur, þannig að ég beið á ljósunum alveg hel**** lengi. Mamma tók við á besínstöðinni uppi á höfða. Ég held að hún hafi ekki alveg treyst mér að keyra upp í Borgarfjörð. Ég varð samt ægilega fúl yfir því að mega ekki keyra í gegnum þjóðarstolt okkar íslendinga, Hvalfjarðargöngin, en það lagaðist allt þar sem ég fékk að taka við í Borgarnesi. Þar gaf ég fyrsta fokkmerkið mitt úti í umferðinni (það var á bakvið mælaborðið og enginn annar en ég sá það en það er hugurinn sem gildir) og einhver hálfviti á hvítum jeppa skildi mig eftir í reykskýi. Ég hata svona plebbafólk.

Íslenskt slangur hjá huguðum

Um daginn var ég að lesa smásögu á huga. Svo villtist ég inn á heimasíðu hjá einhverri 15 ára stelpu og hún skrifaði bara bókstaflega ekkert rétt! Mér finnst það rosalega skrítið, þó svo að fólk sé bara að skrifa fyrir sjálft sig, að það skrifi bara nákvæmlega eins og orðin eru sögð. Ég hef prófað það og mér finnst það bara mikið erfiðara, svo ekki sé minnst á það hvernig er að lesa þetta hrognamál! Ég persónulega gef skít í það þegar ég er til dæmis að skrifa á msn eða senda sms þegar ég skrifa til dæmis óvart q í staðin fyrir p eða eitthvað álíka, fólk hlýtur að skilja það. En ekki á heimasíðunni minni. Mér er ekki sama hvernig ég kem út á heimasíðunni minni.
Þetta er örugglega mest allt svolítið svona mótsagnakennt og örugglega einhverjar stafsetningavillur í þessum texta en ég læt mér það þá bara að kenningu verða.

Gleðilega páska!

miðvikudagur

Flensa

Ég er búin að liggja í flensu frá því í fyrradag. Það er æðislegt að byrja páskafríið svona! Í gær setti ég met í svefni. Ég sofnaði klukkan 9 á mánudagskveldinu og vaknaði klukkan hálfníu í gær. Þá horfði ég á hina klassísku tölvuteiknimynd Shrek og fór svo að sofa aftur. Nokkrir aðilar vroru ákveðnir í því að vekja mig með símhringingum en með þó nokkrum hléum tókst mér að sofa til klukkan hálf fimm í gær. Og ég sofnaði aftur fyrir klukkan 10 í gærkveldi.

Píka hvað?

Já, ég fór á píkusögur á sunnudagskveldið (rétt áður en ég varð veik). Það var nú meiri stemmningin! Glös brotin í miðju leikriti, bjórinn seldur á 600 kall og sódavatnið á 200, brjálaðar saumaklúbbskellingar að míga á sig úr hlátri og svo við, brjáluðu unglingarnir. En þett var æsispennandi þrátt fyrir allt og ég komst að því að mig langar svolítið til þess að verða leikari. Reyndar er þetta eitthvað sem ég kemst að í hvert einasta skipti sem ég fer í leikhús en ég fer ekki það oft þannig að þetta er svona eiginlega ný upplifun í hvert skipti.

Takk fyrir það.

laugardagur

það eru skorpin og kramin lík á götum bæjarins. Það er ógeeeeðslegt.

föstudagur

Jájá, einmitt

Ég las bloggið hans Ragga nú bara rétt áðan og mér fannst einhvernveginn eins og ég hefði séð þetta áður, það sem hann var að segja frá sjáiði til. Jú, þannig var málum háttað að eftir að hafa lesið um hrakfarir hans og Halla fannst mér ég bara hafa verið að upplifa svona væmið atriði í væminni mynd með væmnu pari í svona væmnum veltislag í snjónum. Sjáiði þetta ekki fyrir ykkur? Lesið og pælið. Ég efast ekki um að þeir þurfi að viðurkenna eitthvað fyrir okkur hinum... eða hvað?

Páskafríið

er byrjað hjá mér en það byrjar eigi vel. Þarf ég að byrja á því að spila á 11/2 - 2 tíma óleikum í kveld ásamt u.þ.b 20 öðrum gemlingum. Ætlum við að leiða saman strengi okkar og spila verk eftir til dæmis Mozart og Händel... hver kannast ekki við þá! Ég get svo svariða!

Sumarbúsataðferðin

er farin fjandans til. Ein okkar tók upp á því að skreppa til Portúgal um páskana og ákvað að vera ekkert að láta sjá sig aftur á landi ísa fyrr en seinnt og um síðir aðfararnótt laugardagins 26. apríl en þá ætluðum við einmitt að vera komnar upp í bústað og vera orðnar dulítið hressar. Nú hefur ferðinni verið frestað fram í 1. helgina í júní. Get ég með fullri vissu lofað ykkur því að henni verður frestað fram í júlí þangað til að komin er verslunarmannahelgi en þá er nú önnur áform plönuð get ég sagt ykkur. Eða eins og einn þekktur huxuður sagði oftar en ekki; ,,Dó!"

Með von um heilsusamlegt líferni
Músin

fimmtudagur

Þar sem ég tel forsprakka blogger.com ekki kunna íslensku vil ég bölva þessu rugli í sand og ösku. Allt gott og blessað með það að geta miðlað huxunum sínum til almennigs, ef viljinn er til staðar, en þegar maður er búinn að skrifa heila hel... fok... ritgerð á þetta rugl og ýtir svo á einhvern bölvaðan takka og allt ruglast og fer ekki inn á síðuna er mér nóg boðið!

Ég er orðin rosalega þunglynd af því að vera að lesa þessa bölvuðu sögu um heimsstyrjöldina síðari. Hitler var vondur maður. Eins og það hafi ekki áður komið fram? Ég legg þá bara sérstaka áherslu á það núna, hann var vondur maður!

Ég er brjáluð!

laugardagur

jæja... ég er þá semsagt komin heim og búin að sofa í sjö klukkutíma, lesa Brennunjáls-sögu í 1 klukkutíma og borða nammi í 16 tíma ca. Þetta er náttúrulega bara lauslega reiknað hjá mér og auðvitað borðaði ég hollustu líka!

ég er búin að komast að því að ég er allt of löt við að læra. Nú ætla ég að leggjast upp í sófa og glugga í Spænskubækurnar mínar því ég er að fara í smápróf í spænsku á mánudag og svo þarf ég líka að lesa Nóttin hefur 1000 augu því það er víst líka próf úr henni á mánudaginn. Hún er ekki góð. Hún heldur mér allavega ekki fastri við lesturinn ef ég á að vera hreinskilin.

Pæling dagsins:
Ég þoli ekki eigingjarnt fólk. Ég þoli ekki fólk sem heldur að það geti logið sig út úr öllu án þess að nokkur fatti það. Ég þoli ekki fólk sem heldur að það sé best og að allir dýrki það.
Þess má til gamans geta að ég kýldi eina mannsekju hressilega í magann áðan sem hefur öll ofangreind einkenni.

föstudagur

jújú... mín bara búin með 15 mínútna lestur úr Njálu og var það bara vel skal ég segja ykkur (ótrúlegt hvað sumir smita orðaforða út frá sér).

Halli er kominn til Svíþjóðar að hitta Ragga og ætla þeir í sameiningu að sýna Svíum hvernig alvöru íslenskir víkingar drekka bjór og skemmta sér. Ég geri fastlega ráð fyrir því að flytja þufri aukabirgðir til Gautaborgar þar sem þeir eru einmitt staddir núna þar sem bjór er þeim báðum líkt og loft er okkur hinum.

Ég vil meina það að það sé ekki sniðugt að kaupa sér nammi uppi í Sambó verksmiðjunni sem framleiðir Þrista og kúlusúkk því að nammibirgðirnar sem ég er með hérna fyrir mig eina væru nægar til að fæða allan bandaríska herflotann í Írak. Og Írakana með.

Takk fyrir það.

Quotation of the day:
"... og ef við tökumst að lesa í 24 tíma..." (Þórhildur)
Þess má til gamans geta að á þessum tímapunkti stóðum við í dyragættinni hjá bláókunnugum manni og vorum að sníkja peninga útá það hvað við erum ógeðslega KLÁR!)

mánudagur

Jáhá! Komin heim frá Eyri Akurs.

fimmtudagur

Núnú... Maður er orðinn svo mikið VIP í skólanum að nemendafélagið ætlar bara að splæsa í flugferð fyrir mig á morgun til Akureyrar á meðan restin af liðinu þarf að rullast þangað í rútu... hahaha!
Nei... Við eigum nú bara að mæta á æfingu og þess vegna erum við að fara í flugvél, til að vera mættar á réttum tíma. Mér finnst það nú soldið skondið, ég hef aldrei farið í innanlandflug, en samt hef ég farið svona u.þ.b. 15 sinnum til útlanda! Mjög skemmtilegt, einhventíman er allt fyrst.

Einelti... að elta einhvern einan

er bara ein sú sorglegasta leið sem til er til að sætta sig við sjálfan sig. Fólk sem beytir einelti er bara illa innrætt. Í gær heyrði ég að ákveðin manneskja hefði sett ákveðna manneskju ofan í ruslafötu. Mér er nákvæmlega sama hversu fyndið fólki finnst þetta vera, maður setur ekki aðra manneskju ofan í ruslafötu! Það er bara ekkert annað en mannvonska. Þegar ég var yngri varð ég vitni af hræðilegu einelti og gerði ekkert í því því ég var hrædd um að ég yrði bara líka lögð í einelti. Núna sé ég eftir því, því manneskjan sem um ræðir er ein af mínum bestu vinkonum og mundi ég fegin færa henni hjálparhönd. Nú þegar ég er búin að deila með ykkur svona huxunum sem eru kannski ekki alveg til að lífga upp á tilveruna ætla ég bara að koma með léttan brandara í lokin...

A teacher asked her class "What do you want out of life"?
A little girl in the back raised her hand and said, "All I want
out of life is four animals."
The teacher asked "Really? And what four animals would that be"?
The little girl said, "A mink on my back, a jaguar in my garage,
a tiger in my bed and a jackass to pay for it all."

Lifið heil

þriðjudagur

Ég gleymdi að minnast á tónleika sem ég fór á á sunnudaginn (hvað er málið með öll þessi á?).
Þannig var að á sunnudag var síðasti dagurinn á listadögum ungmenna og barna í garðabæ. Á tónleikunum voru aðeins tvær manneskjur að performa. Fyrri var Jón Svavar Jósepson, en hann er bassasöngvari og er að fara að taka burtfararpróf úr Tónlistaskólanum í Garðabæ núna í vor. Þess má til gamans geta að hann er einmitt stjúpsonur uppáhaldskennarans míns í skólanum, hans Geirharðs. En Jón er örugglega mesti karakter sem ég hef séð á sviði og það var æðislegt að sitja þarna og hlusta á hann syngja ýmis lög sem maður hefur heyrt eða ekki heyrt. Hann er með geggjaða rödd og gúmmífés og hann er bara hreint út sagt frábær! Algjört beib líka þó hann sé lágur í loftinu. Eva Guðný, stelpa jafngömul mér, var eftir hlé. Stelpan sú hefur verið að æfa í skóla Yehudi Menuhins frá því hún var 13 ára gömul. Þar áður var hún með mér í tónlistarskóla! En hún allavega mætti þarna galvösk upp á sviðið. Í fyrstu var ég ekki heilluð því verkið sem hún spilaði var í raun eitthvað sem ég hefði getað gert sjálf en engu að síður mjög vel gert hjá henni. En þegar líða tók á tónleikana var hjartað farið ofan í buxur og ég alveg að tryllast í sætinu því þetta var svo geeeeeðveikt flott hjá henni að ég er viss um að Yehudi sjálfur hefði staðið á öndinni! Og vil ég nota tækifærið og óska henni innilega til hamingju með það hvernig hún spilar. Nú, svo eftir tónleikana er ég eðlilega búin að vera að brjálast á því að æfa mig og ég æfi mig og æfi! Þetta er svo gaman! Mikið væri gaman að geta spilað svona vel eins og hún og fá að halda bara sér tónleika fyrir sjálfan sig! Þetta ætla ég að gera einhverntímann.

Nú þess má einnig til gamans geta að það getur vel verið að ég fari til Frakklands í sumar, og enn og aftur mun ég ferðast ein (ef úr þessu verður). Stefnan er tekin á námskeið í einhverju R héraði sem ég man ekki hvað heitir. Námskeiðið er alveg óhemju vinsælt heyri ég og það er fyrir næstum öll svona 'vinsælustu' hljóðfæri; selló, píanó, fiðlu, víólu o.s.frv. Svo er líka kenndur söngur. Mjög skemmtilegt það!

Vona að ég hafi upplýsti ykkur með þessum einstaka fróðleik.

mánudagur

HAHAHAHAHAH!!!!

Ég var að hlæja skammtinn fyrir vikuna núna áðan! Þannig er nú mál með vexti að ég er heima hjá henni Þórhildi og hún var eitthvað að sýna mér svona tösku sem pabbi hennar fékk í Saga Bussiness Class og þar í var auka sokkapar, svona gríma fyrir augun til að geta sofið, tannkrem, tannbursti, breath refresher og sitthvað annað nytsamlegt. En svo kom toppurinn sko. Það vor svona tveir kringlóttir límmiðar sem á stóð "Please do not disturb" og á hinum stóð "Please wake me up for meals". Og hvað á maður að gera við svona líka góða nytjavöru? Jú, mikið rétt, maður setur einfaldlega límmiðann á einhvern vel valinn stað á hausnum á sér, til dæmis ennið, og fer svo bara að sofa og lætur flugfreyjurnar um að vekja mann, eða þá láta mann í friði sé þess óskað. Þetta er náttúrulega ekkert nema snilldarverk frá aðstandednum Flugleiða og vil ég óska þeim til hamingju með áfangann. Já, þetta var sko skemmtilegt.

Akureyri... Jájá...

Ég er mikið á móti verðlagningu sem sett hefur verið á ferðina til Akureyrar. Hún hefur orðið til þess að engin af vinkonum mínum fer þangað. Huxið ykkur stemminguna sem hlýtur að verða hjá mér! Ein á Akureyri yfir heila helgi!!! Nei, auðvitað þekki ég einhvern en það er enginn svona sem er alveg góður vinur minn eða vinkona og þá er ekki eins gaman. En ég neyðist til að fara til að skemmta landi og þjóð. Jújú... það sem maður leggur ekki á sig fyrir landann.

Kennarasleikjur eða bara nemendasleikjur?

Ég hef sjaldan orðið jafnreið og ég varð í morgun út í náttúrufræðikennarann minn. Ég varð alveg svo brjáluð að ég þurfti að fara fram á gang til að róa mig niður sko. Ég er náttúrulega svo samviskusamur nemandi og við vorum að gera verkefni sem við í rauninni þurfum ekkert að gera, en svona til að fá góða einkunn á prófinu ákvað ég að leggja eitthvað á mig. Svo kom að því að ég þurfti hjálp og ég bað um hana kurteisilega með því að rétta upp hendina og kalla á kennarann sem ég ætla reyndar ekki að nafngreina hér. Hann var kominn upp að borðinu mínu og ég var svona að benda honum á dæmi og þá kallar stelpa sem er með mér í tíma á hann (þess má til gaman geta að hún situr aftast og ég fremst þannig að það var þó nokkurt bil á milli okkar) og hann hættir að fylgjast með því sem ég er að gera og byrjar að tala við hana og labbar bara í burtu! Ég get svo svarið það að ég varð rauð í framan af reiði því þetta er sko ekki í eina skiptið sem þetta hefur gerst. Og það er sko engin tilviljun hvaða nemendur hann tekur fram yfir... þeir eru yfirleitt ljóshærðir með blá augu og í svona of litlum fötum með rassaboruna alveg að hoppa upp úr. Ég vil bara segja það að ef ég þarf að leggjast svo lágt að fara að aflita á mér hárið og ganga í flegnum bolum til helvítis og push-up bra dauðans til að fá aðstoð frá kennaranum mínum þá finnst mér það orðið frekar slæmt. Mér finnst þetta bara vera kennaranum sjálfum til skammar. Svo er hann alltaf eitthvað að böggast yfir því að ég fylgist ekki með í tímum! Hvað meinar hann? Hann er bara ekki einu sinni að fylgjast almennilega með sjálfur! Svo bara til þess að rökstyðja mál mitt aðeins frekar verð ég að bæta því við að þessi kennari er hátt settur í skólanum svo ég segi nú ekki meira.

sunnudagur

Ég er búin að stúdera Saybia diskinn minn ennþá meira. Mér þykir gaman frá því að segja að hann verður betri og betri eftir því sem ég hlusta oftar á hann. En ég er svo óhemju eigingjörn að mér finnst alveg ömurlegt að aðrir hafi uppgötvað Saybia og hvað þá að það sé byrjað að spila þetta bara á fullu í útvarpinu! Og það á FM! Þetta er kannski algjör óþarfa smámunansemi en svona er ég bara.

Ég lenti næstum í árekstri áðan og það var ekki skemmtileg reynsla.

laugardagur

Draumur á hvítu skýi

Mig dreymir...
Mig dreymir náttúrulega alveg helling á hverri nóttu en...
Núna er sá draumur efst á baugi hjá mér að mig langar að stofna hljómsveit. Já, sko! Mig langar að stofna hljómsveit. En það er bara pínulítil spurning um hvar ég ætti að finna aðra hljómsveirameðlimi. Og svo er auðvitað reginvandamál með það hvað í ósköpunum ég ætti að gera í hljómsveitinni! Ætli ég gæti ekki sungið... hver veit?
En ég kann að glamra á gítar og ég kann á fiðlu... ég kann líka ágætlega á píanó og svo er alltaf hægt að fikra sig áfram á bassa first maður kann á gítar held ég. Þannig að ef ég gæti reddað trommuleikara gæti ég kannski séð ágætlega um þetta sjálf. En ég þekki bara einn trommuleikara og hann er nú þegar í hljómsveit. þetta gæti orðið ogguponku vandamál svona held ég... hmmm... Goalið er allavega að komast í músíktilraunir að ári. Vá hvað það væri samt gaman mar!
Nú, aðalástæða þess að ég er að huxa um þetta núna er sú að áðan fór ég með Thelmu og Ingunni að hitta hljómsveitina sem ætlar að spila með okkur á Akureyri og vitiði hvað, til þess að komast á æfingasvæðið þurfti maður að labba inn í eitthvað skítugt port og þar var skúr og inn í skúrnum var æfingasvæðið! Og það var heaven! fullt af einhverju drasli og dóti og bulli og alls konar póstkort og plaköt út um alla veggi. Og í einu horninu var kassi stútfullur af gömlum plötum. Það lá við að ég spyrði hvort ég mætti ekki taka mynd af þessu. Mér fannst þetta æðislegt. Svo var svo mikið af drasli að maður komst ekki neitt og á gólfinu var svo mikið af snúrum að ef maður horfði ekki almennilega niður fyrir sig átti maður það á hætti að flækja sig í einni og hrasa niður á eitthvað oddhvast og þar að leiðandi deyja eða eitthvað annað hræðilegt. Þetta fílaði ég nú alveg í tætlur!

Sögupróf, Elín, Sögupróf!!!

föstudagur

jahérnahér.
Bara enn einn flöskudagurinn kominn! Mér er samt alveg sama. Helgar eru örugglega erfiðustu tímarnir fyrir mig. Allt stútfullt af heimalærdómi og æfingum og fleiri æfingum. Já, ég er sko alveg uppgefin eftir helgar á meðan aðrir eru bara mjög úthvíldir. En einhver verður að taka þetta út.

Mér er farið að förlast. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að skrifa á þessu blessaða bloggi og ég bara hreint út sagt nenni þessu ekki. ENNN... dónt vörrí. Ég er ekki farin strax. Onei, mér finnst þetta nebbla líka voða gaman sko, allavega í hófi.

Ég var að fá nýja myndavél í gær. Hún er hörkuflott. Hún er sko svona stafræn og ég fékk myndavélaprentara í kaupbæti! Huxið ykkur það! :)

Jæja,
ég er víst að fara í sögutíma og það er próf á þriðjudaginn... ekki gott mál :o/

Lifið heil

fimmtudagur

Saddaam og runninn

Ég skil ekki þetta asnalega rugl. Mér finnst þetta svo mikið bull að það er ekki einu sinni fyndið. Svo er maður að fylgjast með þessu í sjónvarpinu og manni finnst eins og Api og Wannabe Hitler séu í einhverjum byssuleik! Djöfu.... er þetta mikið kjaftæði. Ég sá eina mynd af særðu barni í morgun í hádegishléinu og mér leið hryllilega að vera þarna í bara mínu rólega lífi að narta í gulrætur og sitjandi í risastórum sal í þægilegum sætum og fæturna uppi á stólnum fyrir framan mig. Bush er ekkert annað en api.

Samræmd próf í framhaldsskólum! Hvaða...?

Í dag var heit umræða í félagsfræðitíma um samræmduprófin sem fyrirhuguð eru í framhaldsskólum. Við ræddum þetta fram og aftur, enginn virtist vera með þessu og allir orðnir alveg sótrauðir í framan af reiði. Nú, svo kom hádegishléið og við fórum niður í matsal og var þá ekki bara öllu nærstöddu liði þjappað saman og svo stóð einhver ljósmyndari upp á stól og tók mynd af herlegheitunum með hnefana upp í loft. Allt þetta til að mótmæla prófunum. Þetta líkar mér sko! Ég vil ekki þurfa að taka samræmt próf í stærðfræði! Ég er bara skilduð til að taka tvo áfanga, ég er búin með einn og ætla að taka hinn um leið og færi gefst. Ég get ekki tekið eitthvað fokking samræmt próf í stærðfræði! Væri ekki bara ráð að háskólarnir gerðu bara inntökupróf til þess að geta valið réttu nemendurna? Hvernig væri það? Þá gæti maður bara tekið próf í því sem maður vildi læra, ekki einhverju sem manni finnst að andskotinn sjálfur hafi skapað bara til að ná sér niður á manni fyrir eitthvð sem maður gerði í fyrralífi! Já, ég mótmæli.

miðvikudagur

Feimni er ekki gott mál...

Ég er feimin. Og það á heimsmælikvarða. Þetta háir mér alveg hrikalega. Ég hitti sætan strák í pratýi og tala við hann. Hann er með mér í skóla og í einum tíma og ég tala ekki við hann. Svo segi ég hæ á árshátíðinni og hann líka. Og brosir. Og ég get ekki einu sinni litið framan í hann í skólanum. Er ekki til einhver lækning við þessu? Endilega gefið ykkur fram ef þið vitið um eitthvað. En fyrir utan það þá eru strákar líka ekkert nema vandamál. Íþyngja manni barasta.

Tarot

Mig langar svo að láta spá fyrir mér með tarot spilum. Ég trúi alveg rosalega á þetta. Það hljómar kannski vírd en þetta hlýtur að vera til, annars væri fólk ekki að þessu!

þriðjudagur

Ég er með þriðjudagsveikina... Í gær var það mánudagsveikin sem er í raun algengari og mannskæðari en í dag er þriðjudagur og þar af leiðandi get ég ekki verið með mánudagsveikina eða hvað?

Það er ekki sniðugt að fá sér appelsínu í morgunmat því þá er maður með svona tæjur úr kjötinu út um allt í munninum (samt búin að bursta 2svar sinnum!) og það tekur allan daginn að trakka þér niður og ná þeim úr. Mjög niðurdrepandi.

Nína 'Júlí' handleggsbrotnaði ekki eins og alþjóð veit kannski en hún tognaði bara. Mikið hélt ég samt að þetta hefði verið hluti af sýningunni. Maður vissi bara ei hvað til bragðs ætti að taka.

Ég þoli ekki þriðjudaga!

laugardagur

Æjæjjj...

Ég var í leikhúsi áðan á Rómeó & Júlíu. Þetta er eitt magnaðasta leikrit sem ég hef farið á! Nálægðin við leikarana er alveg að fara með mann og maður fær næstum svita og skirp sletturnar yfir sig. Ég var alltaf að bíða eftir því að einhver ditti úr rólunum eða eitthvað og viti menn... Eftir að u.þ.b. 15 mínútur voru liðnar eftir hlé datt Nína Dögg Filippusdóttir (Júlía hörself) af sviðinu og annaðhvort handleggsbrotnaði eða eitthvað annað slæmt og það þurfti að kansela sýninguna og senda liðið heim. Þetta var rosalega slæmt fall og mér brá svo svakalega að ég bara vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Hún öskraði sko þetta var svo vont. Ég fann svo til með henni að ég var að deyja. Greyið. Og hún er sko gift frænda mínum honum Gísla og hún er að fara til Þýskalands á svokallað Shooting Star sem er fyrir upprennandi stjörnur og henni var boðið eða eitthvað svoleiðis og það er bara stutt í það og hvað ef þetta er alveg svakalega alvarlegt??? Jöminn!

Kók er viðbjóður en samt

Ég sit fyrir framan imbann og er að japla á einu ógeðslegasta tyggjói sem framleitt hefur verið. Stöðvaúrvalið er nú ekkert alveg yfirþyrmandi en stöðin sem varð fyrir valinu í þetta skipti var SjárEinn. Eins og flesti glöggir menn vita þá er mikið lagt upp úr auglýsingum og auglýsingahléum og einmitt í einu svoleiðis kom nýja kók auglýsingin þar sem gæinn situr og er að bíða eftir kærustunni sinni og vinnukallarnir eru þarna í byggingunni. Verð að segja að þetta er schnilldarauglýsing. Hverjum dettur svona lagað í hug?? Alveg hreint með eindæmum. Annars er Kók drykkur frá því neðra og ber að banna hann með öllu. Skemmir tennur, heilsu og allt heila klabbið bara.

Sænska...

Það er sænsk mynd á stöð eitt og ég verð að viðurkenna að sænska er með einu af kúlustu tungumálum í heimi! Ég hreint elllllska hreiminn. Veit ekki hvað það er en það er eitthvað. Ég kann samt bara eina setningu á sænsku og hún er tekin beint upp úr myndinni Fucking Amal og það er einmitt nafna mín, Elín, sem segir hana. Mjög gott, mjög gott. En ég kann bara ekki að skrifa hana þannig að ég læt bara nægja að segja að hún er rosalega dónaleg... eða svoleis...

fimmtudagur

Hahaaaa!

Minns er í fyrirpartýi fyrir árshátíð FG-inga og það er svaka stemmning... maður orðinn vel í því og svona! Minns er að hlusta á Where is my mind og er að leita að fleiri skemmtilegum lögum... svo ætla ég að láta liðið hlusta á Saybia og fara að gráta áður en við förum :)

góðar stundir eins og frægur maður segir oftar en ekki,
Ellus

miðvikudagur

Það er svakalega erfitt að vera í nefnd... ég segi það satt!

Ég er brunnin til helv... á bakinu... samt vona ég að ég verði orðin brún á morgun :)
Sénsinn.

þriðjudagur

Af hverju fólk getur ekki kveikt útiljósin skil ég eigi. Ég er oftar en ekki nær dauða en lífi þegar ég geng í hús með Morgunblaðið á morgnana. Þá sérstaklega eitt hús þar sem alltaf er slökkt ljósið og jarðvegurinn svo grýttur að það hálfa væri helmingur. Svo gafst ég nánast alveg upp í vetur þegar svartasta myrkrið var og ég var að verða komin upp að húsinu án mikilla hrakninga og gamall og hrukkóttur kall birtist allt í einu í dyrunum...! Mér brá svo að ég hendti blaðinu í hann og hljóp í burtu. Já, svona er hún veröldin skrýtin. Ég bíð samt spennt eftir því að það verði bjart aftur þegar ég ber út. Þá er maður ekki eins þunglyndur og þarf kannski ekki að vera alveg eins hrikalega mikið dúðaður í úlpu flíspeysu af stóra bróður svo ermarnar nái nógu langt niður og svoleis. Djöfull er samt kallt í dag... ég er með sultardropa á nefinu og ég sit upp við ofninn inni!

mánudagur

Í nótt vakti ég lengi til að klára bókina Grafarþögn efti Arnald Indriðason. Hún er með eindæmum góð og ég mæli með henni. Ég er löngu komin yfir það að vera myrkfælin en ég ætlaði sko ekki að geta sofnað eftir að lesa þessa bók. Hún er ótrúlega krípí og ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að loka augunum. Samt eru engir draugar og ekki neitt í henni en hún er samt rosalega skelfileg og það er svo skrítið að hugsa til þess að því sem er lýst í þessari bók sé í raun og veru til. Þetta er að gerast á hverjum degi. Nú vil ég ekki segja of mikið ef ske kynni að einhver sem les þetta hefur ekki lesið bókina en ég mæli samt eindregið með henni.
Svo fór mín bara í próf úr henni áðan og hreint brilleraði! Að eigin mati reyndar en mér fannst ganga rosalega vel. Takk fyrir það.

Ég pæli stundum of mikið í hlutum sem skipta ekki máli. Ég stunda það til dæmis mikið að velta því fyrir mér hvað sjampó sem freyðir ekki er asnalegt. Það er ekki hægt að þvo hárið sitt upp úr sjampói sem freyðir ekki!

Árshátíðin í skólanum mínum er á fimmtudaginn. Ég er svo hneyksluð að það nær engri átt. Í haust var haldið busaball á Astró. Það var í fyrsta skipti sem ég kom inn á Astró og fannst mér hann nú ekkert sérstakur. Hann var þröngur og subbulegur og ég var alltaf að detta um fólk sem var að detta og fólk var bara í algjörri kremuju. Samt voru bara um 200 manns á ballinu. Núna verður árshátíð. Ég geri sterklega ráð fyrir því að fleiri manns mæti á árshátíðina en á busaballið og við erum að tala um svona kannski 400 manns. Ballið verður á Astró. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með nemendaráð FG og hugsa að ég leggi fram kvörtun. Samt fer hún örugglega ekkert lengra en hingað.
Ég mótmæli!

Ég fór út að borða á Pizza Hut á laugardaginn. Ég veit ekki hvernig það er núna en þegar ég var í 9. bekk var ekki séns á því að fá vinnu þar. Ekki í 9. bekk! En þegar ég mætti þangað voru alveg tvær stelpur sem ég veit að eru í 9. bekk að vinna þar. Þetta er nú soldill óþarfa pirringur en þetta er samt soldið skrýtið.

Ég þoli ekki fólk sem situr við hliðina á manni í tölvustofunni og LES það sem maður er að skrifa. Bara hata það. Mind your own bussines!!

fimmtudagur

Það sem er leiðinlegast í geimi er að vera veik! Bara deila þessu með ykkur.

Ég vil líka fá að deila með ykkur yfirlýsingu Ragga um nördaskap hans. Mér finnst hún sniðug. Mér finnst nördar líka voðalega sniðugir enda er ég einn slíkur. Mjög gaman. Ég tók nefnilega eftir einu í dag. Ég var í dönsku og var að lesa Grafarþögn fyrir íslensku og svo allt í einu fór ég að pæla. Stelpurnar sem sitja fyrir aftan mig hafa í hverjum einasta tíma ekkert annað að tala um en að baktala aðrar vinkonur sínar og hneykslast á öðrum og svona. Ég verð að viðurkenna að ég hef tekið þátt í baktali en VÁ hvað þessar stelpur lifa á þessu. Svo fór ég að pæla aðeins meira. Ég veit að ég á eftir að fá skítkast fyrir þetta einhverstaðar frá en mér er alveg sama og ætla bara að tjá mig um þetta. Þær eru einmitt einar af þessu fallega fólki og því meira sem ég huxa um þetta því skýrara verður þetta... Fallega fólkið lifir á baktali og slúðri. Mér finnst skemmtilegast að lifa á því að vera asnaleg og gera það sem ég vil. Hux hux.

Annars labbaði ég um alla Smáralind í gær (og þegar ég segi alla þá meina ég ALLA) og betlaði fyrir styrkjum til að ég komist til Noregs í vor. Það gekk alveg ágætlega og fólk var almennt bara nokkuð jákvætt á þetta. Reyndar kom mér það mjög fyndnilega á óvart þegar kallin sem við töluðum við í TIGER sagðist ekki auglýsa búðina sína. Hann bara auglýsir EKKI. Mjög skondið. Reyndar sagðist hann vera meira en tilbúinn til að gefa okkur svona 3-4 hluti ef við ætluðum kannski að halda svona flóamarkað eða eitthvað. Mjög elskulegur og það var mjög sætt þegar hann hló og bumban hristist. Feitt fólk er nefnilega algjörar dúllur stundum. Sem dæmi má nefna kallinn í The King of Queens sem er sýndur á skjá einum á fimmtudögum ef ég man rétt. Hann er bara beib með meiru en hann er rosalega mikil bolla. Bollabolla. En heyrðu, nú er þetta farið að fara út í rugl!

Plön eftir stúdentinn

eru komin á borðið. Jú, það á að flykkjast í Interrail ferð strax eftir útskrift! Jeiiii! Áhugasamir endilega skrái sig í gestabókina mína :) En bara svo við höfum það á hreinu þá á ekki að skipulegga NEITT. Þetta verður bara ferð út í bláinn! Maður gæti þess vegna vaknað í Brussel einn daginn. Nei, segi svona.

Jæja, ætli maður verði ekki að fara að einbeita sér að þessum blessaða skóla sem maður á víst að vera að stunda af kappi... látum það samt ligga á milli hluta hvort ég sé í rauninni að því eða hvað... Huxhux!

miðvikudagur

Gítarinn minn er loksins kominn í réttar hendur. Mér líður yndislega að geta byrjað að glamra aftur og ég tók nú bara satt að segja ekki eftir því fyrst að hann væri ekki hjá mér en um leið og ég fékk hann í hendurnar áðan fann ég að ég hef saknað hans sárt! Mjöööög sárt. Ég get ekki beðið eftir því að fá Mikka Mús gítarinn hennar mömmu :)
Eminem og kúlistar bandaríkjanna

Ég var að horfa á DVD í annað skipti á Imbrudögum í morgun (ég sótti nú alveg um að gera eitthvað annað en það var allt annað fullt sjáiði til). Myndin sem sýnd var í morgun var mun skárri en sú sem var í gær. Allavega hélt hún stemmingu í liðinu. Sú mynd heitir 8 Mile og er með rapparanum knáa Eminem fyrir þá sem ekki fylgjast með. Ég horfði á myndina með mikilli eftirtekt og hún reyndi reyndar (vó... næstum því eins!) alveg gífurlega á heilann því það getur verið hörku vinna að skilja þessa gangstara þegar þeir eru farnir að tala "street"-málið svokallaða. En ég er ekki hæf til að fara að gagnrýna þess mynd því það mundi bara enda illa. Hins vegar vil ég koma því á framfæri að ég held að svona myndir hafi alvarleg áhrif á tungu þeirra sem þær horfa. Þegar myndin var búin gekk ég í rólegheitunum um götur hverfisins áleiðis heim, alveg ótrúlega frábærlega mögnuðu veðri, og tók þá allt í einu eftir því að ég var að hugsa á ensku, og ekki nóg með það, ég var sko að hugsa á "street"-málinu þar sem orð eins og 'shit' og 'fucking' komu víðs vegar við sögu. Ég reyndi strax að útrýma þessu úr huganum og byrjaði að hugsa um Laxdælu svona til að halda í þetta alíslenska sem ég hef í mínum gagnagrunni ef svo má segja. Annars fannst mér myndin alls ekki svo slæm!
Umsjónarmenn Imbrudaga stóðu sig mun betur í dag en í gær. Reyndar var hún Sigga húsvörður ekki ánægð með framistöðu nemenda í sambandi við hreinlæti og skammaði hún okkur hressilega og bannaði okkur að vera með neitt sem heitir matur og drykkur inni í fyrirlestrarsalnum. Svo óskaði hún okkur góðrar skemmtunar og brosti sínu blíðasta. Æj, hún er svo mikið krúsíbúsí! ENNN... Nemendaráðið dó ekki ráðalaust enda ráð og ætti að vita eitthvað í sinn haus, og lét okkur bara hafa gosið sem við borguðum fyrir í lok myndarinnar. Mjög gott, verrí gúdd!

Fuglasöngur og Esjan okkar góða

Í gærmorgun þegar ég vaknaði hress og kát klukkan sex og fór út, var sólin byrjuð að koma upp! Það var geggjuð sjón að sjá þegar hún kom upp fyrir aftan Esjuna sem sást reyndar ekki fyrst, en kom svo í ljós en þá var hún bara svartar útlínur. Það var magnað! Svo í gærdag og í dag er ég búin að njóta fuglasöngs út í hinar ystu æsar. Já, það má sko með sanni segja að vorið sé að koma og mér er alveg sama þó að fólk sé visst um að það snjói um páskana. Það er að koma vor! Allavega hjá mér :)

P.s. í þessum skrifuðu orðum eru litlir sætir fuglar að eta úr garðinu mínum... mússímússímússí!

þriðjudagur

Pælingar

Af hverju ætli maður þurfi alltaf að gá hvort veggur sé nýmálaður, þegar maður sér viðvörun um það?

Af hverju er Alcoholics Anonymus (AA) (ísl. "Ónafngreindir Alkoholistar" nefndir svo, þegar það fyrsta sem þeir gera á fundum er að standa upp og segja eitthvað á þessa leið: "Ég heiti Halldór og ég er alkoholisti"?

Skyldi "franskur koss" bara kallast "koss" í Frakklandi?

Hver ætli hafi verið sá fyrsti sem horfði á kú og sagði: "Ég held ég kreisti þetta dinglumdangl neðan á henni og drekki það sem út kemur"?

Af hverju límist ekki límtúpan saman?

Af hverju sér maður aldrei fyrirsögnina: "Skyggn manneskja vinnur í lottó"?

Af hverju er orðið "skammstöfun" svona langt orð?

Af hverju er hnefaleikahringurinn ferhyrndur?

Af hverju er appelsínusafi framleiddur úr gerviefnum og uppþvottalögur búinn til úr ekta sítrónum?

Af hverju er það kallað "rush-hour" einmitt þegar umferðin gengur sem hægast?

Af hverju er orðið orðabók í orðabókum?

Af hverju er ekki til kattamatur með músabragði?

Af hverju eru flugvélar ekki framleiddar úr sama efni og "svarti kassinn" sem er óbrjótandi og erfitt að eyðileggja?

Af hverju eru allar brauðristar með stillingu sem brenna brauðsneiðar í kolamola sem enginn vill borða?

Ef maður á jarðarskika, á maður hana þá alveg niður að kjarna Jarðarinnar?

Af hverju geta konur ekki sett á sig maskara án þess að hafa opinn munninn?

Af hverju klæjar mann alltaf í nefið þegar maður er búinn að óhreinka hendurnar?

Af hverju er mínútan miklu lengur að líða fyrir utan klósetthurðina en innan?

Ef ástin er blind, af hverju eru sexý undirföt þá svona vinsæl?

Hvers vegna vantar okkur alltaf eitthvað af draslinu sem við geymdum uppi á lofti í 3 ár, 3 dögum eftir að við hentum því loksins?

Ef það er satt að við séum hér til að hjálpa öðrum, hvað eru þá hinir að gera hér?

Ef ólívuolía er búin til úr ólívum, hvaðan kemur þá barnaolían?

Imbrudagar pimbrudagar

Ég vil lýsa yfir stríði á hendur umsjónarmanna Imbrudaga! Dagurinn var ekki eins notalegur og skemmtilegur eins og gert hafði verið ráð fyrir. Ég mætti þarna galvösk klukkan hálf ellefu og ætlaði að horfa á einhverja skemmtilega mynd. Myndin sem sýnd var var About Schmidt og var hún nú alveg sérdeilis prýðileg. Hún var ágæt. Soldið löng reyndar.
En það var ekki allt. Myndin bilaði 2svar og þetta tók óhemjandi langan tíma að laga hana í bæði skiptin. Svo fengum við ekkert gos eins og okkur hafði verið lofað og ég borgaið heilar 250 krónur fyrir þetta volæði! sussubí.
Svo þegar þetta var búið leitaði ég dauðaleit að einhverjum sem gat sagt mér hvar hugmyndasamkeppnin væri (það var það næsta sem ég átti að fara í).
Svörin sem ég fékk voru á þessa leið (vil taka það fram að þau voru frá stjórnendum Imbrudaga):
"Ha, hugmyndasamkeppni? Hvað er það?"
"Erum við með hugmyndasamkeppni?"
"Spurðu hann"
"Spurðu hana"
"Ertu búin að tala við Ella?" (Elli var ekki á svæðinu)
"Ég finn ekki konuna sem á að vera með hugmyndasamkeppnina!"

Þetta gekk svona í u.þ.b. þrjú korter og ég var við það að labba út úr skólanum, þá kallaði Ingunn í mig, miskunnsamur samherji, og sagði mér hvar þetta var.
Þetta bjargaðist fyrir horn skal ég segja ykkur... ég hefði sagt mig úr skólanum sko! Nei, kannski ekki alveg...

laugardagur

Það er ömurlegt að eiga ferðatölvu, þráðlausa nettengingu en geta svo ekki verið á netinu inni í herberginu sínu því sendirinni (sem btw var plantað lengst niðri í kjallara) nær ekki þangað! Þetta er umhugsunarefni dagsins.

Ég er mikið á móti bankastarfsemi Íslands. Ég veit reyndar ekki hvernig það er úti í útlöndum en allavega finnst mér fáránlegt að loka klukkan fjögur því þá er ég ekki einu sinni búin í skólanum! Hvers á maður að gjalda? Svo var mér sagt að kortið mitt, sem hraðbanki ákvað að gleypa um síðustu helgi, yrði komið í mitt útibú hér í bæ garða eftir tvo daga og það var á mánudeginum. Svo ég mætti galvösk rétt fyrir lokun á fimmtudag en þá var ekkert kort komið. Bölvað. Á föstudaginn hafði ég ekki tíma til að fara og ná í það þannig að nú verð ég að lifa helgina án kortsins míns sem er einmitt svo ómissandi hlutur í hinu daglega lífi. Sérstaklega þegar maður er að fara í bæinn. En ég náði samt að redda þessu með klókindum mínum.

Saybia verða ekki á Hróaskeldu.

föstudagur

Finn ekkert um aldur á Hróaskelduhátíðarvefnum..... Maður ætti kannski bara að skella sér... hmmmmm
Saybia is: Søren Huss vocals, Sebastian Sandstrøm guitar, Jess Jensen keyboards, Jeppe Knudsen bass, Palle Sørensen drums.

Góð og gild dönsk nöfn: Einn heitir Já, annar Jeppi... Mjög upplífgandi
Ég hef verið að stúdera Saybia diskinn minn vel og verð að pína ykkur með enn einum pælingum mínum um þessa stórbrotnu hljómsveit. Ég hef mikið verið að pæla í textunum og hef komist að því að sá sem skrifar og semur þar af leiðandi textana er alls ekki svo ólíkur mér. Hver það er veit ég reyndar ekki en ég skal sko komast að því. Textarnir (sem reyndar eru í vitlausu kyni þar sem ég tel mig vera kvenmann) eru svo góð lýsing á mér og því sem mér finnst. Alveg hreint schnilldarlega gert. Ég vil óska þeim sem semur textana innilega til hamingju. Annars á ég í fullu fangi með að læra þá. Þegar maður heldur að maður sé að ná tökum á þeim þá breytast þeir allt í einu og svo fyrirvaralaust að manni liggur við köfnun. Mæli með disknum enn og aftur og aftur og aftur og aftur.

(mér þykir samt að íslendingar ættu aðeins að skoða þá tónlist sem þeir eru að kaupa í massavís. Tilbúnings- og færibandatónlist djöbblanna)

Lifið heil...
Skósólar og Valsidans

Ég fór í æsispennandi leikfimistíma áðan. Þar vorum við að dansa Polka, Vals og eitthvað eitt í viðbót sem ég man ekki hvað heitir. Þar fékk ég að dansa við ýmist slæma, góða eða ágæta dansfélaga og var það vel. Til þess að koma mér aftur til heimkynna minna þurfti ég að taka strætisvagn og var það ekki eins skemmtilegt. Stæróbílstjórinn hefur mikla óbeit á mér eftir að ég kom tvisvar sama dag, í fyrra skiptið gleymdi ég peningnum heima og hann hleypti mér inn með trega og gaf mér meira að segja skiptimiða... svo kom ég sko með útrunninn skiptimiða í seinna skiptið... þá varð hann nú ekki kátur en hleypti mér nú samt inn. En svo gaf hann mér bara illt augnaráð í dag!!! Ég alveg hissa því ég borgaði uppsett verð; 220 kall!!! Skrýtin veröld sem við lifum í.
Eftir að hafa rúntað dágóðan hring um Garðabæ steig ég út úr vagninum og komst að þeirri óskemmtilegu staðreynd að skórnir mínir eru ekki einungis með eitt og ekki tvö, heldur þrú riiiiiisastór göt. Plús það að sólinn er að detta af. Kannski maður leggi leið sína í einhverja skóbúð um helgina. Who knows?

Ráðlegging dagsins

Fyrir þá sem eru að reyna að hætta að borða nammi, snakk og annan viðbjóða ættu að prufa að fá sér Kellogs Special K í skál og narta í. Mjög holt og gott. Einnig er mjög sniðugt að naga neglurnar en það getur valdið óþægindum og sárum.

Góðan flöskudag.

miðvikudagur

Álverið í straumsvík og æsilegar köfunarferðir

Á miðvikudags eftirmiðdegi er fátt jafn óhressilegt eins og að fara í skoðunarferð um álverið í Sraumsvík. En ég fór nú samt, og vopnuð rauðum sloppi þar sem því var staðfastlega haldið fram að ég héti Gestur, hlífðargleraugum, hjálmi og skrítnasta útvarpstæki sem ég hef á ævinni séð, hélt ég út í óvissuna með u.þ.b. 29 öðrum ráðviltum og umkomulausum unglingum. Þegar mætt var á svæðið rifjaðist upp fyrir mér síðasta og einasta skiptið sem ég hef farið áður í Álverið og það var sko alls ekki skoðunarferð. Onei! Ég var sko að henda mér út í sjóinn fram af bryggjunni í þeirri ferð. Sko ÞAÐ var hressandi. En svo ég víkji aftur að þessari einstöku upplifun sem ég varð fyrir í dag. Við ókum þarna um í rútu sem var svo vel búin að það var alls ekki erfitt að halla sér aftur og loka augunum á meðan lítill gamall kall með jólasveinaskegg þuldi upp ártöl og einhverjar óskiljanlegar formúlur. Svo vorum við rifin upp úr værum svefni og hent út í óveðrið á 'Gests'-sloppnum einum fata (að utan). Þar vorum við leidd í gegnum skála fullan af vondri lykt, ryki, áli, meiri vondri lykt og miklum hljóðtruflunum úr skrítna útvarpinu. Svona gekk þetta í hálf í annan tíma; inn og út úr bússinum, kalt, heitt, svefn, vaka. Ekki sniðugt. Eeeenn... Svo var eitthvað verið að reyna að afsaka þetta með því að gefa okkur geisladisk með Sykurmolunum, Bubba, Gunnari Þórðarsyni og fleiri gæða tónlistarmönnum. Ég hef ekki hlustað á hann enn en hann er alveg örugglega algjör bomba. B-O-B-A! (djöfull er ég nastí alltaf)

Njála og Noregur

Jú, nú fer að styttast óðum í Noregsferð og ég var á löngum og ströngum fundi áðan um gang mála í fjáröfluninni. Við komumst að þeirri niðurstöðu að við ætlum að lesa Njálu í 24 klukkutíma. Já, þú last rétt. Og við ætlum sko að láta fólk borga okkur fúlgu fjár fyrir að lesa. Hahaha! Mér finnst það féfletting á heimsmælikvarða því ekkert geri ég skemmtilegra en að vaka yfir heila nótt í góðra vina hópi og ég er viss um að það skemmir sko ekki að bæta við svona örugglega skemmtilegum hlut eins og að lesa Íslendingasögu! Múhahaha. En þetta verður allavega stemming í meira lagi og ég hlakka mikið til. Svo er jafnvel verið að velta því fyrir sér að fá að vera með kaffisölu, en hei, það er sennilega ekki hægt því við erum ekki með söluleyfi! Þurfum við þá ekki lestrarleyfi líka? Og kannski leyfi yfirvalda fyrir því að vaka heila nótt? Arg hvað maður getur orðið pirraður á svona eintómri smámunasemi í fólki alltaf. En, svona er heimurinn sko.

Ég kveð að sinni.
Eg má ekki ofgera mér í tölvunni, þetta tekur svo á skiluru.
Sæl að sinni.

þriðjudagur

Það getur verið stórhættulegt að blogga. Alveg sjúklega deindjerus! Passið ykkur.

Hallir og Tónlist

Mín fjárfesti í einu stykki af geisladisknum með Saybia í gær. Það kostaði mig hvorki meira né minna en 2339 krónur, tvo strætómiða(sem eru í rauninni 440 krónur!) og MIKINN tíma í vitlaustum strætó. Jájájá. En allavega. Svo fór ég að pæla. Allur þessi peningur. Mikið hljóta eigendur Skífunnar að eiga það gott í 1000 fermetra höllunum með bíósalina, golfvellina, matsölustaðina, heilsuræktina og allt þetta innanhúss. Og ég er að stuðla að því! En mér er svo sem alveg sama svo lengi sem ég nýt tónlistarinnar.

Hróaskelda Póaskelda

Mig laaaaangar svo á Hróaskeldu að það er alveg óhugnarlegt! En það er alveg ómælanlegt hvað heimurinn getur verið krúl við okkur unga fólkið sem erum of gömul til að leika okkur í barbí en of ung til að skemmta okkur á uppákomum eins og þeirri er kennd er við Hróa-skeldu. Já. Svona er hún veröld. En mér var einmitt tjáð það að Saybia yrði að skemmta þar. Ennþá verra. Þá leggst maður barasta í þunglyndi! Hrmf.

Wilkommen

Ég vil kynna ykkur fyrir nýjum og gildum bloggurum, Katrínu og Árna Tómasi.

Takk

sunnudagur

Tónlistin er mannsins megin


Ef tónlist væri ekki til, þá held ég að mannkynið ætti mjöööööög bágt. Allavega ég sem manneskja.

Ég uppgötvaði nýja hljómsveit í gær. Sú heitir Saybia og kemst alveg skelfilega nálægt því að vera alveg nokkuð jafn góð og Nirvana. Allt önnur tónlist náttúrulega en samt...
Mig langar á Hróaskeldu...

Það er vetrarfrí í skólanum á morgun og ég ætla að nýta það eins vel og hægt er... í svefn. Hvað annað ætti maður að gera við svona gefins frí annars? Ég hlakka samt til að fara í skólann á þriðjudaginn en það er nú bara svona once in a lifetime thing held ég.

Ísland er skrýtnasta land í heimi. Bezt í heimi.

föstudagur

teljari kominn eftir mikið erfiði. ég er hamingjusamasta manneskja í heimi.
Takk fyrir það
Snökt snökt. Norðmennirnir mínir eru farnir, allir hér heima í þunglyndi og miðað við það sem ég heyri eru þau úti það líka. We are meant to be. Eða svoleiðis. Ég var að tala við einn þeirra og hann var sko alveg að sakna okkar. Og við hans. En ég skal ekki íþyngja ykkur með þessu væli mínu. (aðeins 81 dagur til stefnu samt)

Þann 29. mars verður haldið til Akureyrar. Þar mun ég koma fram fyrir alþjóð. Mikil gleði og gaman. Meira af því síðar.

Þvílík gleði og hamingja þegar ég fór út í morgun! Sko flottari snjó hef ég ekki séð í langan tíma. En það varði ekki lengi. Bömmer.

Leikfimikennarinn minn er veikur á geði. Hann heldur að góal okkar allra sé að fara í fittness og verða eins og Magnús Scheving. Ég held nú síður. Ég er ekki að geta lyft mér upp 100 sinnum án þess að finna einhvers staðar til! Bjartsýni dauðans mar!
Brósi minn barasta kominn með blogg. Ég veit ekki einu sinni hvort ég eigi að vita það. Gæti verið eitthvað klúrt sem hann skrifar inn á síðuna sem litlar systur eiga alllllls ekki að sjá... úps...

mánudagur

jámm... Fyrsta prófið í sögnum komið á borðið og ekki hærra né lægra en 5,5! Jú, ég náði meira en helming rétt og má vera stolt af.

Helgin var ekkert annað en brjálæði! Á föstudaginn var farið í keilu með liðið og allir í góðum fíling á eftir og ætluðu að fara niðrí bæ. Nú, ég alltaf jafn mikill fjörkálfur og hress og kát, þurfti að mæta á æfingu kl. 10 á laugardagsmorgun þannig að ég skildi mína norsara eftir í umsjón góðra kunningja. Allt gott og blessað með það, þau fóru niðrí bæ en ég hringdi í múttu og lét sækja mig í þvílíku slagveðri að helmingurinn af því hálfa hefði verið helmingi meira en nóg. Svo fer ég á æfingu á laugardaginn og þeir nottla ennþá sofandi. Klukkan 1 átti ég svo að spila einhverstaðar í tónlistarskólanum og AFTUR klukkan tvö.... á meðan það átti sér allt saman stað var farið á Players og horft á leikinn kl. tólf og svo farið á Pizza Hut á eftir. Ég náði samt að fara á Pizza Hut og fá mér eina lummu eða svo. Svo á laugardagskvöldið var farið í partý og svo niður í bæ og kvöldið kom skemmtilega á óvart. Í partýinu urðu ólíklegustu aðilar ástfangnir í óliklegust aðilum... (ég var meira svona bara í því að koma fólki saman). Í bænum fór ótrúlegasta fólk að gráta hreinlega úr ástarsorg og við hittum sætan íslenskan strák sem talaði norsku. Jú, alveg hreint ágætis stemming í húsinu það kvöld. Í gær var svo farið með liðið í Perluna, Hard Rock og á The Hot Chic... Myndin sem ekki er enn byrjað að auglýsa í Noregi lagðist vel í landann. Veðrið kom í veg fyrir að hægt væri að fara á kaffihús þannig að það verður bara gert seinna...!

Bara tveir tímar eftir í skólanum í dag! Júbbíleium! Eða þýðir það eitthvað annað?

Það verður fiskur á boðstólnum í kvöld fyrir gæjana... sjáum hvernig það fer. Annars er ég að ná góðu sambandi við alla aðra en þá tvo í öllum hópnum! Þeir eru samt ágætis strákar ef á heildina er litið. Á maður ekki alltaf að hugsa svoleis?